VIÐAUKI – FYRRUM FORMENN OG FORYSTUMENN HAFA ORÐIÐ:


Ólafur Pálsson

Ólafur Pálsson
Meistarafélagið hefur átt þeirri gæfu að fagna að eiga á hverjum tíma góða forystumenn; menn sem hafa borið hag félagsins fyrir brjósti, verið ötulir í störfum sínum og öflugir félagsmálamenn. Ekki leikur vafi á að það hefur verið félaginu styrkur á hverjum tíma að hafa slíka menn í forsvari. Einn þeirra er Ólafur Pálsson, en nafn hans og störf voru órjúfanlega tengd Meistarafélaginu um langt árabil en þar áður var hann í forystu fyrir Iðnaðarmanna-félag Hafnarfjarðar. Ólafur var framkvæmdastjóri MIH frá 1969 til 1986 og jafnframt formaður MIH frá 1969 til 1973. Í 20 ára afmælisblaði Meistarafélagsins leit Ólafur yfir farinn veg og margt af því sem þar kom fram á erindi við þá sem nú tilheyra félaginu og minnir jafnframt á að ábyrgð þeirra sem veljast til forystu er jafnan mikil. Ólafur ræddi fyrst um upphafið og Iðnaðarmannafélagið, en þar gegndi hann formennsku þegar hugmyndin um uppskiptingu félagsins í meistara- og sveinafélag kom upphaflega fram sem eins og áður hefur verið rakið átti upphaf sitt með framkvæmdum við byggingu álversins í Straumsvík. Ólafur segir:

„Starfsemi Iðnaðarmannafélagsins var í rauninni vel upp byggð, deildarskipt eftir iðngreinum og hafði þá hver deild með kjaramálin að gera. Þetta fannst okkur þá mjög gott. Við unnum allir saman og náðum góðum árangri.

Það gengu allir meistarar í Meistarafélag og sveinar í Sveinafélagið (FBH). Ég tók strax þátt í Meistarafélaginu og það fór allvel af stað. Það kom brátt í ljós að þeir sem fóru í stjórn höfðu öðlast mikla reynslu og þekkingu á félagsstörfum í Iðnaðarmannafélaginu. Þeim fórst þetta vel úr hendi og leystu byrjunarvandamálin. Ég held ég geti sagt að ég hafi verið ánægður með þróun mála þegar þetta fór af stað.

Þegar þetta var komið vel í gang þá fannst mér að ég væri búinn að leggja fram minn skerf til Iðnaðarmannafélagsins. Eftir að ég hafði verið formaður Iðnaðarmannafélagsins í 3 ár, þá ákvað ég að draga mig alveg út úr félagsmálunum og fara að helga mig hinu raunverulega starfi. En hlutirnir fara ekki alltaf eins og maður áætlar, því þegar kom fram á árið (1968) og það þurfti að fara að taka á ýmsum málum, þá varð ég að gera upp hug minn. Það tók að hvessa í samskiptum sveina og meistara, kjarasamningar og málefnasamningur voru í smíðum og skrifstofa var þegar í gangi á þessum tíma. Ritarinn sem hafði verið kjörinn í stjórn Meistarafélagsins hætti við þátttöku svo að ég var fenginn til að hlaupa í skarðið fram að næsta aðalfundi. Síðan líður þarna eitt ár. Félagið hafði engan framkvæmdastjóra heldur var rekin sameiginleg skrifstofa félaganna sem mælingastofa. Eftir þetta fyrsta ár þá er það komið á daginn að leiðir þessara félaga þurftu að skilja og ekkert óeðlilegt við það.

Stefán Rafn var formaður Meistarafélagsins á þessum fyrstu árum eins og allir vita. Þá varð það hans að leysa það ákvæði í lögum félagsins að hafa opna skrifstofu og ráða framkvæmdastjóra. Það var þá sem hann fór að þreifa fyrir sér um starfskraft í þetta og stakk þá upp á því að ég tæki þetta að mér. Ég tjáði honum að ég hefði haft í huga að koma ekki meira nálægt félagsmálum í bili. Ég var búinn að gera mér grein fyrir því að annaðhvort var að hætta alveg og snúa sér að sínum störfum eða hætta við smíðarnar og fyrirtækjarekstur og helga sig alveg félagsstarfinu, því þetta tvennt fór ekki saman. Svo eftir nokkra umhugsun og viðræður við stjórnina tók ég þá ákvörðun að hefja störf hjá Meistarafélaginu og reka þessa skrifstofu eins og til var ætlast. En það varð nánast að byrja alveg frá grunni. Þetta var upphafið að ferli mínum sem framkvæmdastjóri Meistarafélagsins.“

Ekki var nóg með að Ólafur tæki að sér framkvæmdastjórastarfið í upphafi hjá félaginu heldur æxluðust mál þannig að hann var einnig formaður félagsins um nokkurra ára skeið. Ólafur lýsti því einnig hvernig þetta bar að á sínum tíma: „Stefán Rafn hafði þegar í upphafi sagt að hann ætlaði ekki að vera lengi í formennskunni. Hann var fenginn í þetta á sínum tíma vegna reynslu hans og hæfileika. Hann leiddi félagið fyrstu skrefin. Þegar hann var búinn að vera þarna í 3 ár sem formaður, þá ákveður hann að draga sig í hlé og fela öðrum þessi störf. Það virtist hins vegar enginn vera tiltækur þá svo það varð úr að ég var kosinn formaður. Ég leit þannig á, að ég væri að hlaupa í skarðið. En ég hafði ekki hugsað mér að vera bæði framkvæmdastjóri og formaður enda kom á daginn að það var ærið verk að vera framkvæmdastjóri þó formennskan bættist ekki við. Félagið var nefnilega enn í mótun. Formennskunni sinnti ég í 3 ár en svo var leitað að nýjum manni en það fannst enginn tiltækur svo að Stefán Rafn var kjörinn formaður á ný og sinnti því um allmörg ár. En svo varð að ég að hlaupa í skarðið á ný í 3 ár held ég, þar til núverandi formaður (innsk.: Sigurður Sigurjónsson) tók við. Jafnframt því var ég búinn að taka ákvörðun um að breyta til og hætta að vinna að þessum málum.

„Ég held að Meistarafélagið hafi alla tíð staðið vel í stykkinu sem hagsmunaaðili fyrir meistarana í bænum og ég held að meisturum hafi alla tíð tekist að veita bæjarfélaginu og bæjarbúum þá þjónustu eins og best verður á kosið á sviði byggingaframkvæmda, örugglega ekki lakari en í nærliggjandi byggðarlögum. Sem sönnun þess má benda á að félagarnir hafa haslað sér völl á vinnumarkaði í Reykjavík, þeim stóra markaði svo ég held að hafnfirskir meistarar hafi staðið sig vel. Þeir hafa held ég alveg fengið sinn skerf af kökunni.“


Stefán Rafn Þórðarson

Stefán Rafn Þórðarson
Einn af gengnum forystumönnum MIH er Stefán Rafn Þórðarson (1924–1995) Hann rak um langt árabil Húsgagnavinnustofu Hafnarfjarðar í félagi við Jónas Hallgrímsson og var auk þess nátengdur Iðnaðarmannafélagi Hafnarfjarðar um langt skeið og í forystu Meistarafélagsins á fyrstu árum þess. Stefán Rafn var formaður MIH 1968–1969 og aftur 1973–1986 Í afmælisblaði MIH frá 1988 rifjaði Stefán stuttlega upp fyrstu ár MIH og umhverfi iðnmeistara eins og það blasti við honum á þessum tíma:

„Það er allavega hægt að fullyrða að kveikjan að stofnun Meistarafélagsins vaknaði hjá Iðnaðarmannafélaginu og breyttar aðstæður gerðu það nauðsynlegt að gæta hagsmuna okkar vegna skiptingar í atvinnusvæði. Ég held að skiptingin hafi verið við Hraunsholtslæk, ef ég man rétt. Við töldum okkur eiga fullan rétt hér á svæðinu og það er ekki hægt að segja að það hafi orðið bein átök. En það kom fyrir að það þurfti að bregðast hart við og þá var gott að hafa góða menn við hliðina á sér sem vissu hvað mátti gera og hvað ekki. Það er oft gott og nauðsynlegt að hlaupa af sér hornin en þetta gekk allt nokkuð vel.“

Þegar Stefán var spurður út í formennskutíð sína og hve lengi hann hafi verið formaður svaraði hann:

„Ég man það varla. Ég held í 3 eða 4 ár en svo varð Ólafur Pálsson formaður og tók við þessu með framkvæmdastjórastarfinu. Það var held ég í 2 eða 3 ár en þá en þá kom ég inn í formennskuna aftur því mönnum fannst ekki rétt að sami maðurinn væri bæði formaður og framkvæmdastjóri og það er þannig enn í dag. Þannig var verið að þreifa sig áfram og ég varð því formaður á ný. En reynslan hefur sýnt að stofnun beggja félaganna, Sveinafélagsins (innsk. FBH) og Meistarafélagins, var nauðsyn því alltaf er verið að setja nýjar reglugerðir og reglur um þessi mál og stéttirnar verða að gæta hagsmuna sinna. Þessi þróun hefur orðið til þess að það eru ekki allir iðnaðarmenn í Iðnaðarmannafélaginu. Við vorum flestir félagar þar yfir 300...“

Um skrifstofurekstur MIH og skrifstofuhaldið ásamt öðru fórust Stefáni svo orð:

„Ég vil nefna það á þessum 20 ára tímamótum að skrifstofan er búin að vera opin allan tímann, alla daga vikunnar allt árið og það verður að teljast nokkuð kraftaverk að það skuli hafa tekist. Þarna hefur verið hægt að halda úti starfsmönnum sem hafa verið til ráðgjafar fyrir iðnaðarmenn ekki síst meistarana. Þarna hefur Ólafur Pálsson borið hitann og þungann í mörg ár. Hann var á sama tíma bæði inni í bygginganefnd og skipulagsnefnd bæjarins og þetta allt saman er skylt hvað öðru og hagkvæmt að vera inni víða og það kom félögunum óneitanlega til góða. Ólafur var líka í stjórn Landssambands iðnaðarmanna og það var ekki síst til góða fyrir meistarana. Og á þeim tíma sem Ólafur var formaður Meistarafélagsins þá kom líka til góða að hann var í stjórn Meistarasambands byggingarmanna. Ég lenti þar líka í stjórn á sínum tíma. ... Þegar maður lítur til baka held ég að það hafi verið styrkur fyrir hafnfirska iðnaðarmenn að það hafa margir góðir menn verið reiðubúnir að leiða málin í samtökum iðnaðarmanna fyrr og síðar. Svo vil ég geta þess, að þegar á heildina er litið hefur það verið mikils virði að samvinna á meðal iðnaðarmanna í bænum, eftir því sem ég best veit, hefur verið afar góð. Þetta hefur verið samhentur hópur yfirleitt.“


Sigurður Sigurjónsson

Sigurður Sigurjónsson
Sigurður Sigurjónsson (1945–2003) tók við formennsku í Meistarafélaginu af Stefáni Rafni Þórðarsyni árið 1986 og gegndi henni til ársins 1993, en hafði verið í varastjórn áður en hann tók við formennsku. Sigurður var ásamt félaga sínum Júlíusi Júlíussyni umsvifamikill í byggingaframkvæmdum um nærri þriggja áratuga skeið bæði í Hafnarfirði og víðar. Fyrst störfuðu þeir saman frá því fyrir 1970 undir heitinu Sigurður og Júlíus og reistu margar byggingar í Hafnarfirði. Síðar með aðkomu fleiri varð Byggðaverk til. Byggðaverk starfaði allt til ársins 1997 og kom að mörgum stórframkvæmdum á starfstíma sínum sem og of langt mál yrði upp að telja. Sigurður rifjaði upp formennskutíð sína í MIH í 30 ára afmælisblaði félagins en á formannstíma hans var m.a. ráðist í tölvuvæðingu skrifstofu MIH, framkvæmdir hófust og var lokið á Bæjarhrauni 2 og félagið eignaðist orlofsíbúð sína á Akureyri. Í viðtali í 30 ára afmælisriti MIH segir hann m. a. frá tildrögum þess að hann varð formaður Meistarafélagsins:

„Ég hafði nú alltaf haft áhuga á félagsstörfum, hafði verið í Lionshreyfingunni og ýmsu öðru. Sumum fannst að það þyrfti að gefa Meistarafélaginu nýtt blóð, þá höfðu þeir Stefán Rafn og Ólafur Pálsson verið formenn við stjórnvölinn 17–18 ár við góðan orðstír og ég held að þeir hafi báðir verið sammála því að það þyrfti að blása í glæðurnar. Ég tók við starfi Stefáns í mars 1986, á miðju tímabili hans. Þá má kannski segja að Jóhann Egilsson sem var útibússtjóri Iðnaðarbankans hafi hvatt mig í þetta starf, en hann hafði alltaf átt gott og náið samstarf við félagið, sem í þá daga var með skrifstofu í sama húsi og bankinn. Það voru ýmsir sem voru á þeirri skoðun að það ætti að sameina meistarafélagið félögunum í Reykjavík. Þar sem menn vissu að ég var mikill Hafnfirðingur í mér þá væri sennilega best að beita mér í þessu máli, þá gaf ég kost á mér til formanns eftir að hafa verið varaformaður í nokkur ár.“

Í formannstíð Sigurðar var tölvuvæðing fyrirtækja og heimila að hefjast fyrir alvöru og það kom í hlut Sigurðar, stjórnarmanna á þessum tíma og ekki síst framkvæmdastjórans, Atla Ólafssonar, að tölvuvæða starfsemi skrifstofunnar. Um þetta sagði Sigurður:

„Það voru nokkuð skiptar skoðanir innan stjórnar hvort kaupa ætti tölvur. Það var svo skrýtið með mig, að þótt ég kunni ekki mikið á tölvur og hristi oft hausinn yfir öllum þessum tölvumálum, þá var ég fyrsti maður til að samþykkja tölvukaup og taldi að ekki ætti að standa á móti nýjungunum og tækninni. Það pirraði mig að það ætti að fara að taka fé úr félagssjóði til tölvukaupa sem ekki var einhugur um svo ég ákvað að borga þetta, og lét þess getið síðar að þetta væri í minningu föður míns, hann hafði verið í þessu félagi.“

Sigurður gerði sér grein fyrir mikilvægi þess að félagar í MIH væru virkir í samtökum iðnaðarmanna:

„Við tókum fljótt upp þá stefnu, þar sem við áttum þess kost, að troða , eins og ég kallaði það, mönnum í nefndir og ráð á vegum iðnaðarins. Félagið var aðili í Landssambandi iðnaðarmanna, og Meistara- og verktakasambandi iðnaðarmanna og þar sem við áttum þess kost að koma mönnum inn þar gerðum við það. Þetta kallaði að sjálfsögðu á aukna vinnu, ekki síst Atla og við þurftum að sjálfsögðu að sinna mörgum fundum og eftir marga þeirra þurftum við að skila álitsgreinum og slíku og ég held að við höfum sinnt þessu nokkuð vel.“

Sigurður var einnig virkur í starfi annarra félaga eða samtaka sem tengdust Meistarafélaginu:

„ ... meðal annars vorum við með okkar lífeyrissjóð, Lífeyrissjóð byggingarmanna í Hafnarfirði þar sem ég lenti fljótt í stjórn og var þar formaður nokkuð lengi. Hann sameinaðist á síðasta ári (1997) fleiri sjóðum, ég taldi að þótt hann gengi vel þá væri hann of lítill og viðkvæmur fyrir skakkaföllum. Einnig tók ég að sjálfsögðu þátt í starfi Meistara- og verktakasambandsins og Landsambands iðnaðarmanna. Þá voru alltof mörg sambönd og mér blöskraði þetta alveg. Ég man eftir því að við Atli lentum á fundi hjá Landssambandinu og þá lagði ég til að nú ætti að segja upp öllu starfsfólki og félögin sameinuðust. Fólk leit á mig eins og ég væri snarruglaður. En viti menn, menn fóru að skoða þessi mál fljótlega og Samtök iðnaðarins eru stofnuð eftir þetta. Það voru hvort eð er allir að vinna að sama máli.“

Sigurður vék stuttlega að uppmælingunni í afmælisritinu 1998:

„Við höfum rekið saman mælingarstofu við og Félag byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði. Þetta gekk allt stórslysalaust en auðvitað var oft bullandi ágreiningur um það hvort menn ætluðu að vera sveinar eða meistarar. Það gekk ekki að menn væru sveinar á daginn en meistarar á kvöldin. Við vildum líka meina það að það ætti að mæla fyrir alla hvort sem þeir væru sveinar eða meistarar, en Sveinafélagið taldi að ekki ætti að mæla hjá sveinum í aukavinnu. Mælingarnar hafa að sjálfsögðu batnað með tímanum eftir því sem meiri reynsla fæst. Þetta kerfi er mjög gott þrátt fyrir að menn tali um uppmælingaraðal, þá finnst vart betra kerfi.“