18. ORLOFSHÚS


Í skjölum Meistarafélagsins frá fyrri tíð má m. a. finna kaupsamning um kaup Meistarafélags iðnaðarmanna á tæplega 2300 fermetra spildu í landi jarðarinnar Reykjabóls í Hrunamannahreppi ásamt sumarbústaði sem var á spildunni. Þetta var árið 1974 og félagið 6 ára gamalt. Með þessu hófst orlofshúsaþátturinn í starfsemi Meistarafélagsins líkt og fjölda annarra stéttarfélaga á þessum tíma. Bústaðurinn var barn síns tíma og er fróðlegt að grípa niður í upplýsingar sem leigjendum hans voru afhentar á þessum tíma. Fyrst er lýst staðsetningu og hvaða leið átti að aka, en síðan er tekið fram að ekki sé „ ... að fullu lokið við að koma bústaðnum né umhverfi hans í það horf sem verða mun, en lögð er áherzla á það að félagsmenn geti nýtt þá aðstöðu sem þegar er fyrir hendi.“ Má af þessu ráða að félagið hafi haft uppi áætlanir um frekari framkvæmdir og frágang, auk þess sem afmörkuð var önnur lóð undir sumarbústað á þessari spildu. Þegar til kom reyndist ekki eftirsóknarvert meðal félagsmanna að nýta sér sumarbústaðinn; hann þótti m. a. óþéttur og ekki í nægjanlega góðu ásigkomulagi almennt. Svo fór að nokkrum árum liðnum að bústaðurinn var seldur svo og landið sem keypt hafði verið.

Alllangur tími leið síðan þar til næstu skref voru tekin í orlofshúsamálum MIH. Það var ekki fyrr en komið var vel fram á níunda áratuginn að stjórn MIH fór að huga að því að eignast orlofshús eða íbúð. Voru fyrirhuguð orlofshúsa- eða íbúðarkaup iðulega til umræðu á stjórnarfundum MIH þessi misseri. Mestan hluta ársins 1990 voru íbúðakaup til umræðu og skoðunar á fundum stjórnar og var þá einkum horft til Akureyrar. Fór svo að seint á árinu 1990 var gert tilboð í íbúð á Fjólugötu 15 á Akureyri og því tekið en til að fjármagna íbúðakaupin á Akureyri voru hlutabréf félagsins í Sjóvá Almennum og Iðnaðarbankanum seld. Frá þeim tíma hefur íbúðin á Fjólugötu 15 verið orlofsíbúð til útleigu félaga í MIH og verið vinsæl sem slík. Ýmsar endurbætur og lagfæringar hefur eðlilega þurft að gera á Fjólugötu á þessum tæpu þrjátíu árum og öll sú vinna hefur verið unnin í óeigingjarnri sjálfboðavinnu félaga. Á nýliðnu ári, 2017, eignaðist félagið svo hina hæð hússins á Fjólugötu 15.

Fjólugata 15, Akureyri

Kaupin innsigluð með handabandi.

Síðar eða árið 2004 eignaðist Meistarafélagið sumarhús á fallegum stað á bökkum Sogs í landi Ásgarðs, sem hefur götuheitið Fljótsbakki 32. Er það með öllum nútíma þægindum og hafa verið gerðar nokkrar lagfæringar og viðbætur á húsinu síðan MIH keypti það. Þessi tvö orlofshús Meistarafélagsins, hvort í sínum landshlutanum, hafa verið vinsæl og eftirsótt meðal félagsmanna. Orlofsnefnd, sem hefur verið starfandi allt frá 1990, hefur haft umsjón með oflofshúsunum sem og útleigu og viðhaldi þeirra sem að sjálfsögðu hefur allt verið unnið í sjálfboðaliðavinnu félaga í MIH.

Fljótsbakki 32

Myndir frá málun á Fljótsbakka 2008