21. AÐILD AÐ SAMTÖKUM IÐNAÐARINS


Við stofnun Meistarafélags iðnaðarmanna í Hafnarfirði árið 1968 voru heildarsamtök iðnaðarmanna lausleg og ekki eins fastmótuð í skipulagi og síðar varð. Meistarasamband byggingarmanna voru eins konar regnhlífarsamtök byggingameistara í Reykjavík um þetta leyti og hafði þann tilgang ekki sístan að verja Reykjavíkursvæðið fyrir samkeppni utanaðkomandi iðnmeistara. Meistarafélagið í Hafnarfirði fékk fljótlega eftir stofnun eins konar aukaaðild með tillögurétti að sambandinu í Reykjavík. Landsamband iðnaðarmanna hafði verið til staðar um langt skeið, en það var stofnað árið 1932 og var Iðnaðarmanna-félag Hafnarfjarðar eitt af stofnfélögum sambandsins. Hafnfirskur iðnmeistari og góður félagi í MIH, Sigurður Kristinsson, málarameistari, var í forystu sambandsins á þessu tímabili, sat í stjórn þess í 20 ár og var formaður þess í 12 ár, auk þess sem fleiri MIH-félagar eins og Ólafur Pálsson, Stefán Rafn Þórðarson ásamt fleirum hafnfirskum iðnmeisturum unnu þar dyggilega að málum sambandsins.

Nokkrir af stofnfélögum MIH

Á fyrstu árum Meistarafélagsins sömdu félagið og Félag byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði sín í milli um kaup og kjör. Yfirleitt tóku þeir samningar mið af því sem um samdist á öðrum svæðum. Síðan eða á síðari hluta áttunda áratugarins varð FBH félagi í Alþýðusambandi Íslands og samningar þess þaðan í frá á vegum ASÍ. Samningsmál MIH tengdust í framhaldinu bæði Verktakasambandinu og síðar Vinnuveitendasamband Íslands og því má segja að á fyrstu 20–25 árunum í starfsemi MIH hafi félagið tengst ýmsum yfirsamtökum en þó mis náið.

Með tilkomu Samtaka iðnaðarins 1994, þar sem fjölmörg hagsmunafélög í iðnaði, þar á meðal nokkur meistarafélög runnu saman í breiðari og sterkari heildarsamtök en verið hafði urðu í kjölfarið talsverðar breytingar á starfsumhverfi meistarafélaga eins og MIH, en félagið gerðist strax aðili að Samtökum iðnaðarins. Félagið átti til dæmis greiðari leið að ýmsum upplýsingum og ráðgjöf en verið hafði, meðal annars lögfræðiráðgjöf, svo að dæmi sé tekið. Þróunin varð síðan sú eins og áður var rakið að síðasti framkvæmdastjóri MIH, Friðrik Á. Ólafsson, varð og hefur verið starfsmaður samtakanna frá árinu 2010 en með ákveðna viðveru á skrifstofu MIH á Bæjarhrauni.

Á starfstíma Samtaka iðnaðarins hafa menntunar-, fræðslu- og endurmenntunarmál smám saman verið að þróast og mótast. Menntafélag byggingariðnaðarins starfaði um tíma og síðan varð IÐAN fræðslusetur til við samruna fjögurra fræðslumiðstöðva í iðnaði og ferðaþjónustu vorið 2006. Um áramótin 2006/2007 bættist síðan Fræðslumiðstöð bílgreina í hópinn. Eigendur IÐUNNAR eru: Samtök iðnaðarins, Samiðn, MATVÍS, Grafía, FIT, VM, Bílgreinasambandið, Samtök ferðaþjónustunnar og Meistarafélag húsasmiða. Hlutverk IÐUNNAR er fyrst og fremst að bæta hæfni fyrirtækja og starfsmanna í iðnaði.