2. HAGSMUNIR HAFNFIRSKRA IÐNAÐARMANNA Í STRAUMSVÍK


Iðnaðarmannafélag Hafnarfjarðar hafði sérstakra hagsmuna að gæta í þessum deilum. Athafnasvæðið í Straumsvík tilheyrði félags- eða vinnusvæði félagsins en erlendu verktakarnir neituðu að viðurkenna kauptaxta hafnfirskra iðnaðarmanna. Þeir töldu einnig – og það sjónarmið hefur vegið þungt í ljósi þess sem varð svo í framhaldinu – að það væri andstætt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur að bæði sveinar og meistarar væru í sama félagi; verktakar í Straumsvík hefðu því engar skyldur gagnvart þessum félögum sem þeir töldu ólögmæt.

Nokkru áður en þetta varð höfðu margir hafnfirskir járniðnaðarmenn gengið í raðir Félags járniðnaðar-manna í Reykjavík eftir að félag þeirra hér í Hafnarfirði lognaðist út af. Tildrög þess voru ekki síst vegna hinnar miklu vinnu sem þá var fyrirsjáanleg í Straumsvík við uppbyggingu álversins en auk þess var það álit sumra að hafnfirskir járniðnaðarmenn hefðu verið „innlimaðir“ í Félag járniðnaðarmanna í Reykjavík meðal annars með gylliboðum um viðbótar húsnæðislán og lífeyrissjóðsréttindi. Það sem hékk líka á þessari spýtu var það að nánast allir félagar í Iðnaðarmannafélagi Hafnarfjarðar voru í félagadeildum eftir iðngreinum og ekkert þessara félaga var í ASÍ þegar að sameiningu hafnfirskra og reykvískra járniðnaðar-manna kom. Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur var skýrt og það samræmdist lögum ASÍ að félög innan sambandsins ákvæðu félagssvæði sitt. Þá blasti við að Félag járniðnaðarmanna í Reykjavík með hafnfirska járniðnaðarmenn innan borðs væri samtímis að þenja út félagssvæði sitt út yfir Garðahrepp og Hafnarfjörð og væru þannig komnir með aðstöðu og rétt til að vinna í Straumsvík.

Um þessa stöðu sem þarna var komin upp sagði Sigurður Kristinsson í 20 ára afmælisriti MIH:

„Þessu máli varð ekki bjargað úr því sem komið var, en það sáu margir sem höfðu haft einhver afskipti af félagsmálum í bænum, að þetta gæti dunið yfir í fleiri iðngreinum. Það var þá sem upp komu hugmyndir um að viðbrögðin við þessu ættu að vera þau, að stofna hér Sveina- og Meistarafélag í byggingariðnaði og þá þóttumst við líka öruggir um að Sveinafélagið (FBH) yrði aðili að ASÍ og hefði þá sitt varnarsvæði. Hinir myndu svo njóta góðs af, það er að segja meistararnir. Niðurstaðan varð sú að það varð nokkuð góð samstaða um að þetta myndu vera rétt viðbrögð. Það voru kosnar tvær nefndir til undirbúnings á stofnun sitt hvors félagsins. Sveinar fengu sína menn kjörna til undirbúnings á stofnun Sveinafélagsins og þeir leituðu að sjálfsögðu til sinna kollega í Reykjavík um lög og skipulag slíks félags. Sama var með þá sem voru valdir til að undirbúa stofnun Meistarafélagsins. – Málefnin voru svo rædd í hópum sitt á hvað.“

Sigurður Kristinsson í ræðustól á Landssambandsþingi