17. MENNTUNARMÁL


Góður iðnmeistari fylgist vel með nýjungum í grein sinni. Auk þess að fjárfesta í góðum tækjum til að auka afkastagetu, einfalda vinnu og auka afköst ræður góður meistari til sín góða iðnaðarmenn. Metnaðarfullir iðnmeistarar og iðnaðarmenn gæta þess að fylgjast vel með nýjungum, tileinka sér nýja tækni og auka þannig hæfni sína í starfi. Þannig verður til orðspor sem erfitt er að meta á mælikvarða.

Menntun og fræðsla iðnmeistara hefur alla tíð verið hluti af starfi Meistarafélags iðnaðarmanna í Hafnarfirði. Allt frá upphafi hefur ýmiss konar fræðslu verið miðlað til félagsmanna. Félagsfundir á fyrri árum voru haldnir reglulega, gjarnan einu sinni til þrisvar á ári, til að upplýsa félagsmenn um hin ýmsu mál, hvort heldur voru kjara- eða bein hagsmunamál en ekki síður fræðslumál þegar fram í sótti. Þegar kom fram á níunda áratuginn og félagið átti ekki lengur beina aðild að samningamálum, voru félags- og fræðslufundir haldnir um jafn ólíka hluti og gæðastaðla, sjúkratryggingar, ábyrgðartryggingar, viðhald, verkefnastjórnun, skipulagsmál og margt fleira. Í raun er þessi þáttur í starfi MIH viðvarandi því umhverfi og starfsvettvangur iðnaðarmanna er í stöðugri þróun.

Síðustu árin í sögu MIH hafa svokallaðir súpufundir verið fastur liður í félagsstarfi Meistarafélagsins. Þeir eru haldnir reglulega oftast með nokkurra vikna millbili. Þar hittast félagar yfir súpu í hádeginu, ræða málin og skiptast á upplýsingum og skoðunum.

Súpufundur 2010