UPPHAFSORÐ


Í fyrstu lögum Meistarafélags iðnaðarmanna í Hafnarfirði á stofnfundi í ársbyrjun 1968 er tekið fram að tilgangur hins nýja félags sé að „efla samstarf meðal meistara og gæta hagsmuna þeirra.“ Fimmtíu árum síðar er þetta hlutverk í fullu gildi og verður væntanlega enn um hríð. Hlutverk félagsins hefur að sjálfsögðu tekið mið af þörfum og kröfum tímans hverju sinni, ekki síður en breytingum í atvinnuumhverfi og sveiflum í efnahagslífi.

Það er ef til vill ekki úr vegi áður en litið er yfir hálfrar aldar sögu Meistarafélags iðnaðarmanna í Hafnarfirði að rifja í grófum dráttum upp hvernig umhorfs var í Hafnarfirði um þetta leyti. Við stofnun Meistarafélags Iðnaðarmanna í Hafnarfirði var margt með öðrum brag í Hafnarfirði en nú er. Bærinn var á þessum tíma rótgróinn útgerðarbær þar sem togaraútgerð sem og útgerð fjölda minni fiskiskipa settu mark sitt á atvinnu- og mannlíf. Samhliða öflugum sjávarútvegi hafði ýmiss konar iðnaðarstarfsemi fest sig í sessi í áranna rás og var ríkur þáttur í atvinnulífi bæjarins. Margar vélsmiðjur, trésmiðjur- og húsgagnavinnustofur störfuðu í bænum auk einyrkja í rafmagni, múrverki og fleiri iðngreinum. Í bænum hafði skipasmíðastöðin Dröfn verið starfrækt um árabil og hér var fyrsta og eina raftækjaverksmiðja landsins, Rafha, starfandi. Og um þetta leyti hillti undir að fyrsta stóriðjuver landsmanna innan bæjarmarka Hafnarfjarðar, Íslenska álfélagið í Straumsvík, dótturfélag svissneska álhringsins Alusuisse, tæki til starfa.

Íbúafjöldi í Hafnarfirði hafði vaxið jafnt og þétt frá því á fyrri hluta síðustu aldar; voru um 3.600 árið 1930 en í lok árs 1968 voru íbúar í Hafnarfirði tæplega 9.400 og hafði þá fjölgað um rúmlega 2.000 manns frá 1960. Til marks um vöxt bæjarins á sjöunda áratugnum má nefna að barna- eða grunnskólum hafði fjölgað um tvo; Öldutúnsskóli tók til starfa í ársbyrjun 1961 og 1968 var lokið við byggingu Víðistaðaskóla, sem hélst í hendur við nýjasta íbúahverfi bæjarins á þeim tíma, Norðurbæinn. Strax í byrjun áttunda áratugarins voru íbúar íí Hafnarfirði orðnir rúmlega 10.000, um 15.000 upp úr 1990 og eru nú rúmlega 27.000.

Hafís við Ísland 1968. Mynd: Ljósmyndasafn Siglufjarðar

Lok sjöunda áratugarins, árin 1968 og 1969, eru stundum nefnd „síldarleysisárin“ eða „hafísárin.“ Hvort tveggja gerðist þá í senn, að síldin hvarf eins og menn sögðu og slæmt árferði var til lands og sjávar með tilheyrandi hafís og kulda langt fram á vor sem gerðu það að verkum að atvinnustig féll svo um munaði og atvinnuleysisvofan fór á kreik. Atvinnuhorfur iðnaðarmanna voru ekki góðar um þessar mundir, almennur samdráttur í byggingar-iðnaði, framkvæmdum í Straumsvík svo gott sem lokið og útlitið framundan var ekki gott. Fjöldi Íslendinga, þar á meðal iðnaðarmenn, hurfu á braut um lengri eða skemmri tíma og sumir alfarið. Margir fluttust til Skandinavíu, einkum Svíþjóðar, þar sem næga atvinnu var að hafa um þessar mundir, Kanada og jafnvel Ástralíu. Fjölmennir hópar iðnaðarmanna sem og annarra stétta héldu til Svíþjóðar. Í fyrsta hópi smiða sem hélt þangað árið 1969 voru 80 manns, þar af 26 úr Hafnarfirði. Segir það nokkuð um stöðu atvinnumála um þær mundir. Álverið í Straumsvík til starfa í september 1969 og varð upp frá því stærsti og fjölmennasti vinnustaður bæjarins. Hafði tilkoma þess veruleg og jákvæð áhrif á hag bæjarbúa og bæjarfélagsins í heild.

Um langt skeið eða allt frá stofnun Iðnaðarmannafélags Hafnarfjarðar í nóvember 1928 höfðu hafnfirskir iðnaðarmenn átt sér sameiginlegan skjöld og vettvang; sveinar og meistarar í einu félagi. Skipulag Iðnaðarmannafélagsins, þar sem starfsemin var fastmótuð og skipt í deildir eftir iðngreinum og höfðu hver fyrir sig með kjaramál að gera, þótti vera gott fyrirkomulag sem hafði gefist vel í áranna rás og lítil ástæða til breytinga í þeim efnum. Sveinar og meistarar unnu vel saman og náðu góðum árangri í hagsmuna- og kjaramálum.

Ein helsta ástæða þess að hafnfirskir iðnaðarmenn og félagar í Iðnaðarmannafélagi Hafnarfjarðar skiptust í tvo hópa fyrir hálfri öld var krafa erlendra verktaka við framkvæmdir í Straumsvík um að það samrýmdist ekki lögum og samningum við stéttarfélög, að meistarar og sveinar í iðngreinum væru í einu og sama stéttarfélaginu. Þessi krafa erlendu verktakanna í Straumsvík leiddi til þess að upp úr Iðnaðarmannafélagi Hafnarfjarðar urðu til tvö stéttar- og hagsmunafélög eins og nánar verður rakið: Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði og Félag byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði. Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði lifir góðu lífi hálfri öld síðar en Félag byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði varð á vormánuðum 2003 hluti af FIT, Félagi íslenskra tæknimanna, sem hefur fyrir allnokkru sameinast eða orðið hluti af FÍT/Byggiðn, þar sem ýmis iðngreinafélög runnu saman.

Á hálfrar aldar afmæli MIH má segja að félagið eins og önnur fagfélög standi enn í þeim sporum sem hafnfirskir iðnaðarmenn voru í fyrir hálfri öld þótt ekki séu þau að öllu leyti sambærileg. Nú er erlent vinnuafl áberandi í byggingariðnaði og viðbúið að svo verði áfram. Þar reynir á að íslenskum lögum um iðnmenntun, aðbúnað og kjör sé fylgt. Samtímis á iðnmenntun undir högg að sækja meðal æsku landsins. Nemasamningsfyrirkomulagið og tímalengd námssamninga, sem um langt skeið hefur verið órjúfanlegur en nauðsynlegur hluti iðnnáms er nú undir smásjánni. Að hluta má tengja það því hversu auðvelt er að fá erlent vinnuafl til starfa.