7. BAKGRUNNURINN: IÐNAÐARMANNAFÉLÖG OG IÐNSKÓLAR


Iðnaðarmannafélag Hafnarfjarðar, sem enn er við lýði vel að merkja, var stofnað árið 1928, sama dag og sama ár og Iðnskólinn í Hafnarfirði var settur á fót, en stofndagur beggja var 11. nóvember 1928. Iðnaðarmannafélög höfðu orðið til víða um land á fyrstu áratugum síðustu aldar en upphaf slíkra félaga má rekja allt aftur til 1867, þegar Handiðnamannafélagið í Reykjavík var stofnað og var undanfari að Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur. Á síðasta fjórðungi nítjándu aldar óx hugur manna til almennrar menntunar fullorðinna og alveg sérstaklega menntunar iðnaðarmanna. Mönnum varð smám saman betur ljóst að samfélagslega nauðsyn bæri til að eiga vel menntaða iðnaðarmenn, ekki síður en presta eða lækna. Iðnskólinn í Reykjavík tók til starfa 1904 og skömmu eftir stofnun hans eða 1906 flutti hann í nýbyggt hús Iðnaðarmannafélagsins við Vonarstræti. Skólastjóri var Jón Þorláksson, verkfræðingur og síðar athafnasamur borgarstjóri. Kennt var á kvöldin og að loknum 12-13 stunda vinnudegi iðnnema þeirra tíma. Skólaárið 1929-1930 voru nemendur orðnir 295 í 26 iðngreinum og hófst þá kennsla í dagskóla í fyrsta sinn. Á kreppuárunum milli 1930 og 1940 fækkaði iðnnemum nokkuð.

Emil Jónsson

Á stofnári Iðnaðarmannafélagsins í Hafnarfirði og Iðnskólans var Emil Jónsson, þá starfandi bæjarverkfræðingur, fyrsti skólastjóri og kennari Iðnskólans. Emil varð síðar ráðherra, formaður Alþýðuflokksins um skeið og sá stjórnmálamaður sem átti ekki sístan þátt í því að álveri var valinn staður í Straumsvík. Veruleg atvinna var í boði fyrir iðnaðarmenn á fyrstu áratugum síðustu aldar en um 1930 voru starfandi 75 iðnmenntaðir menn í Firðinum. Aðstæður á þeim tíma voru því þannig að þær hafa hvatt unga menn til að afla sér iðnmenntunar. Bóklegt nám sniðið að þörfum iðnaðarmanna hafði hins vegar ekki verið í boði í bænum og næsti iðnskóli var í Reykjavík. Samgöngur milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur voru svo strjálar og erfiðar á þessum árum að þær torvelduðu hafnfirskum iðnnemum að notfæra sér námsframboð þar. Því má segja að upphafið að Iðnskólanum hafi verið lélegar samgöngur milli þessara bæjarfélaga og að sama skapi þörf fyrir að hafnfirskir iðnnemar gætu sótt sér nauðsynlega menntun í heimabæ sínum. Áður en kom að formlegri stofnun Iðnaðarmannafélagsins og Iðnskólans höfðu kvöldnámskeið verið í boði 1926 og 1927. Þar voru kenndar þrjár námsgreinar; íslenska, reikningur og teikning. Hafnarfjarðarbær léði húsnæði til kennslunnar í Gamla barnaskólanum við Suðurgötu, nokkurn veginn þar sem nú er Skattstofa Reykjaness. Fjöldi nemenda á fyrsta námskeiðinu, þar sem kennt var á kvöldin var 24.

Iðnaðarmannafélag Hafnarfjarðar rak Iðnskólann í Hafnarfirði samfleytt frá árinu 1928 til ársins 1956.
Á þessu tímabili fékk skólinn, sem var kvöldskóli allan þennan tíma, inni í þeim tveimur skólabyggingum sem þá voru til staðar. Frá 1928 til 1937 var skólinn í lítilli kennslustofu í Barnaskóla Hafnarfjarðar (Lækjarskóla) en árið 1937 fluttist skólinn í eina kennslustofu í nýbyggðum Flensborgarskóla. Þar var skólinn allt til ársins 1957.

Iðnskólinn í bókasafni Hafnarfjarðar, 1959. Mynd: Alþýðublaðið
Í kjölfar nýrra laga um iðnskóla frá 1955 samþykkti skólanefnd Iðnskólans árið 1956 að Iðnskólinn í Hafnarfirði fengi löggildingu sem sjálfstæður iðnskóli og ráðinn yrði fastur skólastjóri að skólanum sem og kennarar eins og lögin heimiluðu. Jafnframt varð skólinn dagskóli. Haustið 1957 fékkst efri hæð í nýbyggðu bókasafni Hafnarfjarðar við Mjósund leigð undir skólastarfsemina, þar sem skólinn var næstu 15 árin eða til 1972. Frá þeim tíma og allt til ársins 2000 var skólinn með aðsetur á Reykjavíkurvegi 74 og í verkdeildarhúsi við Flatahraun. Árið 2000 var tekið í notkun núverandi húsnæði við Flatahraun, þar sem skólinn hefur starfað síðan, en hann var formlega lagður niður og sameinaður Tækniskólanum á vordögum 2015. Í árslok 2010 lét þáverandi skólameistari Iðnskólans, Jóhannes Einarsson, af störfum eftir langt og farsælt starf og þakkaði Meistarafélagið honum störfin og góða samvinnu með málverkagjöf.

Samandregið má því segja að í Hafnarfirði hafi verið traust og rótgróið umhverfi iðnaðarmanna: heildarfélag sem nú var aðskilið í tvö félög og iðnskóli í bæjarfélaginu sem auðveldaði hafnfirskum iðnnemum að sækja menntun sína innan bæjarmarkanna. Hefur það ekki verið lítils virði þegar á allt er litið. Þetta skilaði sér meðal annars í fjölbreyttri iðnaðarstarfsemi í bænum.

Iðnskólinn í Hafnarfirði, janúar 2018. Mynd: Lilja Björk Runólfsdóttir