10. HÚSNÆÐISMÁL OG REKSTUR SKRIFSTOFU
Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði var fyrst til húsa á Linnetsstíg 3, í húsnæði Iðnaðarmannafélags Hafnarfjarðar þar sem það deildi skrifstofurými með FBH. Árið 1970 fluttist skrifstofan á Strandgötu 1, í nábýli við skrifstofu Félags byggingariðnaðarmanna. Þar var félagið með skrifstofu allt til ársins 1986 er hún fluttist á Reykjavíkurveg 60. Árið 1989 fluttist starfsemin í eigið húsnæði MIH á Bæjarhrauni 2, þar sem hún hefur verið síðan.
Framkvæmdastjóri MIH fyrstu 17 árin eða til 1986 var Ólafur Pálsson og Þórunn Hermannsdóttir starfaði á skrifstofunni við bókhaldsþjónustu sem félagið rak um skeið. Óhætt er að segja að Ólafur Pálsson hafi fylgt Meistarafélaginu dyggilega eftir, allt frá stofnun og fram á fullorðinsár. Frá 1986 til 1998 var Atli Ólafsson framkvæmdastjóri en með honum starfaði Ásthildur Flygenring á skrifstofunni. Atli kom til starfa í byrjun almennrar tölvuvæðingar og það kom í hlut hans að tölvuvæða skrifstofu MIH, m. a. að koma í notkun forriti fyrir mælingar. Við framkvæmdastjórastarfinu af Atla tók Guttormur Pálsson sem starfaði hjá MIH til ársins 2005. Þá tók Friðrik Ágúst Ólafsson við starfi hans. Í breyttu umhverfi meistarafélaga og með tilkomu Samtaka iðnaðarins þróuðust mál síðan á þann veg að starfi Friðriks var fyrst skipt á milli MIH og SI. Þótti það eðlilegt með tilliti til þess m. a. að Friðrik sat í ýmsum nefndum og ráðum á vegum Samtaka iðnaðarins. Frá 2010, þegar Meistarafélag Akureyrar gerðist aðili að SI, hefur Friðrik verið starfsmaður Samtakanna en með ákveðna viðveru vikulega á skrifstofu félagsins á Bæjarhrauni 2.
Skrifstofa MIH, Hafnarfirði