1. HAFNFIRSKIR IÐNAÐARMENN SKIPTAST Í TVÆR SVEITIR, ÁLVERIÐ Í STRAUMSVÍK OG GAGNKVÆMUR UPPÁSKRIFTARRÉTTUR


Það gerðist mjög á sama tíma að Félag byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði og Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði voru stofnuð. Stofnfundur fyrra félagsins var haldinn 16. desember 1967 en stofnfundur Meistarafélags iðnaðarmanna tæpum mánuði síðar eða 13. janúar 1968. Sú aðgreining iðnaðarmanna í Hafnarfirði sem varð með tilkomu þessara tveggja félaga, að sveinar væru saman um stéttar- og hagsmunafélag annars vegar og iðnmeistarar í sér félagi hins vegar, átti sér nokkurn aðdraganda og skýringar og að sumu leyti flóknar, sem nánar verða raktar.

Álverið í Straumsvík. Mynd: Lárus Karl

Framkvæmdir við byggingu álversins Straumsvík sem hófust í marsmánuði 1967 mörkuðu margvísleg spor í efnahags- og atvinnulíf landsins. En ekki síður hafði tilkoma álversins áhrif á afkomu og hag Hafnarfjarðarbæjar sem og Hafnfirðinga. Ekki aðeins var hér um að ræða stærstu einstöku framkvæmd í landinu allt frá stofnun lýðveldisins, heldur snerti hún einnig æði margt í pólitísku, efnahags- og atvinnulegu tilliti og teygði anga sína inn í rótgróið fyrirkomulag stéttarfélaga eins og Iðnaðarmannafélags Hafnarfjarðar, þar sem til dæmis viðtekin svæðaskipting milli iðnaðarmannafélaga hafði ríkt um árabil. Í grófum dráttum má segja að svæðaskiptingin hafi verið þannig að ákveðnar markalínur voru dregnar á því svæði sem nú er oft nefnt höfuðborgarsvæðið. Reykvískir iðnmeistarar og sveinar máttu ekki vinna verk í Hafnarfirði og Garðahreppi. Á sama hátt máttu hafnfirskir meistarar og sveinar ekki vinna verk á Reykjavíkursvæðinu. Þessu tengt var svo réttur meistara til að skrifa upp á og samþykkja teikningar.

Fyrsti áfangi framkvæmdanna í Straumsvík hljóðaði upp á 30 þúsund tonna álframleiðslu á ári með aukinni framleiðslugetu í síðari áföngum. Meðal framkvæmda í fyrsta áfanga samkvæmt sérstökum samningi milli Alussuisse og Hafnarfjarðar-bæjar var 220 metra langur hafnargarður, þar sem skip allt að 30-40 þúsund rúmlestum áttu að geta lagst að til að lesta nauðsynleg aðföng eins og súrál og rafskraut og að hægt væri að skipa út framleiðsluvöru álversins, hrááli (e. primary aluminium, það er að segja óunnu áli). Þessi höfn hefur síðan heitið Straumsvíkurhöfn og verið í umsjá Hafnarfjarðarhafnar alla tíð. Til að gefa nokkra hugmynd um umfang framkvæmdanna í Straumsvík var gert ráð fyrir því að frá 300 og upp í 700 starfsmenn þyrfti til vinnu á framkvæmdatíma og að stærstum hluta byggingariðnaðarmenn. Nefna má til samanburðar að á sama tíma og framkvæmdir í Straumsvík hófust voru 150–200 starfandi félagsmenn í byggingargreinum í Iðnaðarmannafélagi Hafnarfjarðar.

Opnunarhátíð álversins 1970

Það var ríkjandi sjónarmið iðnaðarmanna við þær aðstæður sem stórframkvæmdirnar í Straumsvík sköpuðu, að þær yrðu að mestu eða öllu á hendi Íslendinga. Þar var þó við ramman reip að draga. Stærstu byggingaraðilar í landinu á þessum tíma sameinuðust um tilboð í alla þætti framkvæmdanna en vegna stærðar og umfangs verksins var samkeppnisaðstaða þeirra erfið. Verkkaupinn, Alusuisse, kaus að semja eingöngu við erlend fyrirtæki, þar sem stærstu verktakarnir voru þýska fyrirtækið Hochtief sem sá um hafnarmannvirkin og sænska fyrirtækið SIAB sem hafði með önnur mannvirki á svæðinu að gera.

Þegar við upphaf framkvæmda í Straumsvík varð ljóst að erlendu verktakafyrirtækin ætluðu að fara sínu fram og meðal annars sniðganga réttarstöðu innlendra verkamanna sem og vinnurétt. Fyrirtækin voru bæði staðráðin í að flytja inn fjölda erlendra verkamanna án þess að litið væri til þess hvort viðkomandi hefðu tilskilin iðnréttindi eða önnur starfsréttindi hérlendis. Harðar deilur spruttu af þessum sökum milli fyrirtækjanna og iðnaðarmanna- og verkalýðsfélaga en erlendu fyrirtækin gáfu þær skýringar á afstöðu sinni, að erlendu starfsmennirnir væru sérþjálfaðir og þekktu betur til slíkra verka en íslenskir iðnaðarmenn. Iðnaðarmannafélög í Hafnarfirði og Reykjavík gátu engan veginn fellt sig við þessa framgöngu erlendu fyrirtækjanna og kærðu þau þegar erlendir starfsmenn voru ráðnir í störf sem kröfðust iðnréttinda samkvæmt íslenskum lögum. Að auki voru dæmi um að ekki hefði heldur verið haft fyrir því að leita eftir atvinnuleyfi fyrir erlenda starfsmenn.