14. BYGGINGARSTJÓRI


Meistari þarf að skrifa upp á eða samþykkja teikningar af húsnæði og því sem fylgir nýbyggingum. Hver meistari er ábyrgur fyrir sínum þætti mannvirkis, smiður fyrir uppslætti, múrari fyrir múrverki, pípulagningameistarinn fyrir pípulögnum eins og alkunna er. Þannig hefur þetta haldist um langt skeið og í þessu felst mikil ábyrgð. Í ársbyrjun 1998 tóku gildi ný skipulags- og byggingalög, sem felldu úr gildi eldri lög um þessi mál. Þessi nýju lög höfðu í för með sér talverðar breytingar sem snertu ekki síst byggingameistara en jafnframt byggingafulltrúaembættin í landinu. Sú helsta var að frá og með gildistöku laganna var skylt að hafa framvegis sérstakan byggingastjóra á hverri nýbyggingu. Hann gat samkvæmt nýju lögunum verið einn af þeim iðnmeisturum sem ábyrgðust verkið eða einhver annar meistari. Jafnframt gátu tæknimenn einnig verið byggingastjórar. Byggingastjóri er framkvæmdastjóri hverrar nýbyggingar og ber ábyrgð á að hún sé byggð í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Byggingastjóri er sá aðili sem sem sér til þess að löggiltir iðnmeistarar undirriti yfirlýsingu um að þeir ábyrgist þá þætti sem snúa að hverjum um sig. Byggingastjórinn þarf síðan að afhenda byggingafulltrúa undirritaða yfirlýsinguna og er viðkomandi iðnmeistari þar með orðinn ábyrgur fyrir sínum hluta verksins en byggingastjóri ber ábyrgðina gagnvart byggingafulltrúa og annast öll samskipti við hann.

Annað nýmæli í lögunum frá 1998 sem skiptar skoðanir hafa verið um er það að byggingastjóra er skylt að hafa ábyrgðartryggingu sem gildir í fimm ár frá því að framkvæmdum lýkur. Líkast til hefur hugsunin með þessu ákvæði verið sú að skapa eins konar neytenda- eða kaupendavernd en með því eru byggingafulltrúar líka settir í þá stöðu að meta hvað telst fullnægjandi ábyrgðartrygging í jafn viðamiklum atriðum og hús- eða mannvirkjabyggingar eru, sem og að meta byggingarkostnað hvers mannvirkis. Jákvæður þáttur skipulags- og byggingalaganna frá 1998 er meðal annars að stuðla að virkara eftirliti þannig að öllum ákvæðum laga og reglugerða sé fullnægt og þannig dregið úr líkum á óvandaðri vinnu. Reynslan af ákvæðinu um ábyrgðartryggingu byggingastjóra í lögunum sem nú hafa verið í gildi í tvo áratugi hefur verið misjöfn. Í allnokkrum tilvikum hefur komið til dómsmála, þar sem reynt hefur á ábyrgð byggingastjóra og hafa slík mál farið fyrir Hæstarétt.