4. NEFND UNDIRBÝR STOFNUN MEISTARAFÉLAGS OG SVEINAFÉLAGS
Í beinu framhaldi af þessu var borin upp tillaga á félagsfundi Iðnaðarmannafélagsins að koma á fót nefndum til að undirbúa stofnun þessara félaga. „Mér þótti þetta erfitt skref hjá mér að leggja til að skipta upp Iðnaðarmannafélaginu og hálft í hvoru að ég væri að bregðast því trausti sem mér var sýnt með því að vera falið að stýra þessu ágæta félagi,“ segir Ólafur um þessa stöðu sem upp var komin og óumflýjanlegt reyndist að bregðast við.
Í stuttu máli var staðan því þessi síðla árs 1967 og í ársbyrjun 1968 að sveinar og meistarar í Iðnaðar-mannafélagi Hafnarfjarðar skipuðust í tvö félög en voru þó allir áfram í Iðnaðarmannafélagi Hafnar-fjarðar; Félag byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði og Meistarafélag iðnaðarmanna Hafnarfirði. Samið hafði verið við reykvíska iðnaðarmenn um gagnkvæman uppáskriftarrétt að teikningum mannvirkja og markaði þetta tvennt talsverð tímamót í samfélagi hafnfirskra iðnaðarmanna. Ekki er gott að meta hvort samkomulagið um gagnkvæman uppáskriftarrétt hafi snögglega leitt til mikilla breytinga á starfsumhverfi iðnaðarmanna en með því voru í það minnsta felldir niður áratuga gamlir múrar svæðisskiptingar sem heftu frelsi. Þessi þróun sem þarna var hafin leiddi smám saman til þess að landið allt varð að einu vinnusvæði og starfsvettvangi iðnaðarmanna. Fyrst hvarf svæðaskiptingin á höfuðborgarsvæðinu en þó var það samt svo að síðla árs 1986 var enn rætt á stjórnarfundi um eitt vinnusvæði, sem náði nú yfir Hafnarfjörð, Bessastaðahrepp, Garðabæ, Kópavog, Reykjavík, Seltjarnarnes og Mosfellssveit. Úti um land gætti svæðaskiptingar áfram fram undir lok níunda áratugarins.
Höfuðborgin séð úr lofti frá Vallahverfi í Hafnarfirði 2005. Mynd: Brynjar