16. ALVERKTAKA, ALÚTBOÐ OG EINKAFRAMKVÆMDIR


Áður en og þegar kom til stofnunar MIH má heita að tvenns konar fyrirkomulag hafi verið til staðar í byggingariðnaði í landinu. Algengasta formið var meistari með tvo til þrjá sveina í vinnu með sér og ef til vill handlangara, sem var starf sem nú heyrir nánast sögunni til. Fór það síðan eftir stöðu í greininni hverju sinni hvort fjölgaði eða fækkaði tímabundið í hópnum. Einnig var þekkt að tveir meistarar í sömu iðngrein væru saman um fyrirtæki eða rekstur og gátu þá haft fleiri sveina á sínum snærum og meiri umsvif en sá sem var einn. Hins vegar voru samhliða rekin byggingafyrirtæki sem voru allstór og umsvifamikil á íslenskan mælikvarða en urðu ekki langlíf að sama skapi vegna hins sveiflukennda efnahagsumhverfis í landinu. Um líkt leyti og MIH var stofnað og fram eftir áttunda áratugnum minnast menn að minnsta kosti eins slíks fyrirtækis, sem steypti upp stóran hluta Breiðholtshverfisins, enda hét það einfaldlega Breiðholt!

Auglýsing frá Hagvirki, 1988

Þegar kom fram á níunda áratug síðustu aldar fór verktakafyrirtækjum í byggingariðnaði að fjölga; fyrirtækjum sem voru með á sínum snærum allt í senn smiði, múrara, pípulagningamenn, rafvirkja og jarðvinnumenn og tóku að sér að fullbyggja mannvirki og afhenda fullbúin. Þessi þróun tengdist því að í auknum mæli tóku útboðsaðilar, oft opinberar stofnanir, að bjóða út verk í heilu lagi og var slíkt fyrirkomulag við útboð nefnt alútboð og var talið til hagræðis. Hafnfirsk fyrirtæki sem störfuðu að einhverju eða miklu leyti á þessum markaði á níunda og tíunda áratug síðustu aldar voru t. d. Byggðaverk og Hagvirki og höfðu hundruð starfsmanna í vinnu á blómatíma sínum. Þjóðarbókhlaðan, Kringlan og Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru aðeins fá dæmi um mannvirki sem þessi umsvifamiklu hafnfirsku verktakafyrirtæki áttu þá hlut að.

Bygging Kringlunnar. Mynd: Lárus Karl

Þegar leið að lokum síðustu aldar fór ryðja sér til rúms svokölluð einkaframkvæmd. Fram á sjónarsviðið komu þá fyrirtæki sem saman stóðu oft af fjárfestum eða einstaklingum sem höfðu aðgang að fjármagni, réðu til sín eða höfðu á sínum snærum verktaka sem ýmist önnuðust tiltekna þætti framkvæmdarinnar eða alla. Sveitarfélögum og stjórnvöldum þótti til dæmis fýsilegur kostur að láta slíka aðila annast einkaframkvæmdina í stað þess að fjármagna sjálf stór mannvirki og skuldsetja sig þannig til 20-30 ára. Síðan var gerður leigusamningur, oftast til 20 eða 25 ára, milli einkaframkvæmdarfyrirtækisins og sveitarfélags eða stofnunar um afnnot af viðkomandi byggingu. Segja má að í kjölfar hrunsins hafi þessi framkvæmdamáti horfið svo til alfarið af vettvangi byggingariðnaðar. Um einkaframkvæmd sem slíka voru skiptar skoðanir en í Hafnarfirði eru hús Iðnskólans við Flatahraun, Áslandsskóli og leikskólinn á Hörðuvöllum dæmi um byggingar sem reistar voru í einkaframkvæmd.

Áslandsskóli og hverfið í kring. Mynd: Lárus Karl