15. SVEIFLUR


Eitt af því sem er viðvarandi í starfsumhverfi iðnmeistara eru sveiflurnar í byggingariðnaði eins og vikið hefur verið að áður. Í því sambandi er fróðlegt að rifja upp lýsingu Atla Ólafssonar, framkvæmdastjóra MIH, á ástandinu í byggingariðnaði eins og það birtist honum á 20 ára afmæli Meistarafélagsins 1988:

„Sú mikla spenna sem verið hefur síðustu mánuði á byggingamarkaðnum á margt sameiginlegt með þeim uppgangstíma sem var þegar álverið í Straumsvík var í byggingu en aukin umsvif sem því fylgdu voru kveikjan að stofnun Meistarafélags iðnaðarmanna í Hafnarfirði. Á slíkum tímum verður mönnum frekar ljóst mikilvægi slíks félagsskapar og gildi þess að standa saman að sínum velferðar- og hagsmunamálum. Mikil eftirspurn hefur verið eftir iðnaðarmönnum síðustu misseri og fyrirtækin auglýsa hvert í kapp við annað eftir sama mannskapnum. Óhjákvæmilega hefur þetta leitt til launaskriðs en vinnuaflið hefur að miklu leyti verið á flakki milli meistaranna og fyrirtækjanna. Láta menn sig nú hafa að skipta um starf og byrja á nýjum vinnustað fyrir miklu minni launahækkanir en þeir hefðu áður gert. Þessi óstöðugleiki hefur í sumum tilfellum leitt til þess að atvinnurekendur hafa lent í erfiðleikum með að standa við umsamin verklok og einnig hefur þessi órói leitt til hækkaðs byggingakostnaðar.“

Í framhaldinu ræðir Atla svo annan fylgifisk spennunnar á þessum tíma sem eru hinir

„réttindalausu ... sem ná að þrífast í vinnuaflsskortinum og bjóða fram þjónustu sem þeir ætla að selja of dýra og án nokkurrar ábyrgðar, þannig að þegar „ótölusetta og ómerkta“ kvittunin hefur verið greidd er hvergi hægt að hafa upp á neinum sem svarað gæti fyrir mannanna gjörðir. Alltaf verðum við sem störfum fyrir þessi félög fagmanna varir við þennan „hulduher smáauglýsinganna“ því þegar allt er komið í óefni, farið að leka eða hlutirnir farnir á annan veg heldur en vænst hafði verið er hringt í félögin til að leita aðstoðar og ráða en því miður er ekkert sem við getum gert í slíkum tilfellum enda vantar oftast fullgildan reikning eða verksamning frá þessum mönnum.“

Þetta ástand sem Atli lýsir hér varð svo til þess að meistarafélög og samtök iðnaðarmanna hófu í kjölfarið kynningarstarf eða áróðursherferð gegn svartri iðnaðarstarfsemi undir kjörorðunum: Láttu fagmann vinna verkið. Gefnir voru út upplýsingabæklingar sem dreift var til húsbyggjenda og eigenda íbúðarhúsnæðis sem stóðu frammi fyrir viðhaldi og lagfæringum.

Á hinum enda sveiflnanna í byggingariðnaði var svo ástand eins og varð hér skömmu fyrir 1970 sem birtist í því að að fjöldi iðnaðarmanna átti ekki annan kost en að flytjast til útlanda um lengri eða skemmri tíma til að afla sér lífviðurværis. Svipuð staða kom upp aftur nær 40 árum síðar í kjölfar efnahagshrunsins 2008, þar sem fjölda Íslendinga – í þeim hópi voru iðnaðarmenn fjölmennir – var nauðugur sá kostur að finna sér vinnu erlendis. Langflestir fluttust til Noregs með fjölskyldur sínar eða störfuðu þar og voru áfram búsettir á Íslandi. Í Noregi var þá mikil eftirspurn eftir vinnuafli, ekki síst iðnaðarmönnum, og gengi norsku krónunnar hagstætt gagnvart íslensku krónunni. Nú hefur þetta ástand breyst aftur á síðustu misserum. Íslendingar, jafnt iðnaðarmenn sem aðrar stéttir, hafa snúið heim eftir að efnahagslífið rétti úr kútnum líkt og gerðist upp úr 1970. Sagan endurtekur sig.

Til viðbótar því sem hér hefur verið nefnt varðandi starfsumhverfi iðnmeistara má nefna að þættir eins og aðbúnaður á vinnustöðum, öryggismál, tryggingar o.fl. eru gerólíkir því sem var við stofnun Meistarafélagsins, að ekki sé minnst á allar þær tækninýjungar og tæknibreytingar sem orðið hafa á starfstíma MIH og breytt verklagi og vinnuháttum. Kröfur hafa aukist á öllum sviðum.