13. STARFSUMHVERFI IÐNMEISTARA


Æði margt hefur breyst í starfsumhverfi iðnmeistara á þeirri hálfu öld sem MIH hefur verið starfandi. Nokkrir mikilvægir þættir standa þó óhaggaðir eða lítið breyttir. Til að iðnaðarmaður fái meistararéttindi þarf hann að ljúka tilteknu námi til viðbótar hinu hefðbundna iðnnámi. Meistaranámið tengist ýmsum þáttum atvinnurekstrar, stofnun fyrirtækis, bókhaldi, ábyrgð og skyldum, öryggismálum, tilboðsgerð og fleira eins og kunnugt er. Ýmsar breytingar hafa orðið á meistaranámi í áranna rás, en nú er nám til meistararéttinda fjórar annir og er að hluta lotu- og fjarnám sem einnig kallast dreifnám.

Hið rótgróna samband meistara og sveins rekur sig langt aftur í tímann. Meistari tekur nema á samning og neminn þarf að ljúka iðnnáminu, klára samningstímann, sem hefur verið fram til þessa 96 vikur og ljúka sveinsprófi. Hér hafa þó verið ýmsar blikur á lofti undanfarin ár eða jafnvel áratugi og ýmsar raddir eru uppi um að nauðsynlegt sé að stytta samningstímann líkt og gert hefur verið með nám til stúdentsprófs. Skoðanir eru uppi um að stytta eigi iðnnám líkt og nýlega hefur verið gert með stúdentspróf til að gera iðnnámið eftirsóknarverðara. Það kann þó að orka tvímælis því iðnnám er ólíkt bóknámi í eðli sínu, þar sem reynslan, þjálfunin og æfingin er oft besti skólinn, hver svo sem iðnin er. Við þetta bætist að sífellt erfiðara er fyrir iðnnema, hvort sem er í hárgreiðslu eða húsasmíði, að komast á samning. Mörgum meisturum finnst það íþyngjandi að hafa nema á samningi m. a. með tilliti til launatengdra gjalda og sjá sér frekar hag í að ráða til sín undirverktaka og losna þannig við skatta og skyldur. Þessi staða hefur verið viðvarandi í allnokkurn tíma og staðreynd er að nýliðun í stéttum iðnaðarmanna er ekki nægjanleg á sama tíma og skortur á iðnaðarmönnum blasir við hvarvetna. Ýmsar hugmyndir hafa verið reifaðar til bæta úr þessari stöðu, eins og t. d. að það verði á höndum iðn- og verkmenntaskóla að sjá um að nemar þeirra komist á samning hjá meistara vandræðalaust. Hver þróunin verður er ekki auðvelt að segja til um.

Frjálst flæði vinnuafls á evrópska efnahagssvæðinu, EES, sem Ísland varð hluti af árið 1994, hefur orðið til þess að æ stærri hluti erlendra iðnaðarmanna sem og ófaglærðra starfsmanna starfa nú í byggingariðnaði í landinu. Oft eru erlendir starfsmenn ráðnir sem undirverktakar gegnum svonefndar starfsmannaleigur sem misjafnt orðið hefur farið af í gegnum tíðina eins og kunnugt er úr fréttum. Þetta stafar sumpart af því að ekki hefur fengist innlent vinnuafl og dregið hefur úr hvata meistara til að ráða iðnnema á samning, því það er vissulega ódýrara að þurfa ekki að greiða launatengd gjöld. Minnkandi aðsókn í iðnnám blasir við þrátt fyrir ýmsar tilraunir til að hvetja ungt fólk til að fara í slíkt nám.