Viðtal við Friðrik Ág.

1. júl. 2020

Skriflegir samningar mikilvægir milli verkkaupa og verktaka

Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, segir í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni það vera gríðarlega mikilvægt að gerður sé skriflegur samningur milli verkkaupa og verktaka þegar leitað er eftir þjónustu iðnaðarmanna. „Því miður er það alltof oft þannig að verkkaupar eru ekki alltaf vel inni í hvernig á að standa að því þegar á að fá iðnaðarmenn til að starfa fyrir sig. Það er svo mikilvægt og við erum stöðugt að brýna það fyrir fólki að gera skriflega samninga um hvað á að gera. Í litlum verkum þarf ekki annað en að vera tölvupóstur sem að skýrir hvað er óskað eftir að verði gert og biðja um verð sem er hægt í minni verkum. Þetta er í raun ígildi verksamnings. En í stærri verkum þá er mikilvægt að verkkaupi átti sig á umfangi verks og ef hann er ekki með það á hreinu þá að leita sér aðstoðar.“

Þegar þáttastjórnendur spyrja Friðrik hvar hægt sé að fá slíka aðstoð segir hann að hægt sé að leita til tæknifræðinga og verkfræðingar sem sérhæfa sig í svona löguðu og sumir iðnmeistarar sérhæfi sig líka í að ástandsskoða mannvirki, gera verklýsingu og magnskrá og standa svo að útboði. „Ef iðnmeistari er beðinn um að gera þetta í litlum og millistórum verkum þá er það oft þannig að iðnmeistarinn sem gerir þessi gögn rukkar fyrir vinnuna sem hann hefur lagt í að útbúa öll þessi gögn en ef hann fær verkið að þá er það inni í hans tölu, þá er ekki borgað sérstaklega fyrir þetta. Þetta hefur viðgengist í áratugi og hefur reynst vel. En því miður er það alltof oft sem verkkaupar vanda ekki undirbúninginn og þá kemur til deilna. En að gera skriflegan verksamning er grundvallarforsenda alls að ekki komi til ágreinings.“

Tilboð gerð út frá sömu forsendum

Þá kemur fram í viðtalinu við Friðrik að til þess að geta borið saman tilboð þá sé mikilvægt að undirbúningsvinnan sé unnin svo allir séu að gera tilboð út frá sömu forsendum. „Annars ertu bara að bera saman epli og appelsínur í staðinn fyrir epli og epli.“ Hann segir að í nánast hverju einasta tilfelli þar sem komi upp ágreiningur um greiðslu að þá hafi ekki verið skriflegur samningur. „Það fyrsta sem við spyrjum um ef það er hringt til okkar er hvort gerður var skriflegur samningur og svarið er yfirleitt alltaf nei.“

Friðrik segir að ef gerður er skriflegur samningur þá veit verkkaupi hvað hann er að biðja um að verði gert og hvað hann á að borga fyrir það og verktakinn veit nákvæmlega hvað hann á að gera og hvað hann á að fá borgað fyrir þetta.

Hversu algengar eru deilur af þessu tagi? „Við erum ekki með yfirlit yfir það en miðað við fjölda hringinga þá er þetta alltof oft. Þetta er gríðarlega útbreitt vandamál.“

Allir vinna hjálpar við að stöðva svarta atvinnustarfsemi

Í viðtalinu er einnig rætt um átakið Allir vinna þar sem verkkaupar geta fengið 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti og er Friðrik spurður hvort það sé að skila sínu og hvort það sé nóg að gera? „Það er yfirleitt alltaf nóg að gera á sumrin en þetta hjálpar alveg gríðarlega og þetta hjálpar líka við að stöðva svarta atvinnustarfsemi.“

Alvöru meistarar á meistarinn.is

Þá nefndi Friðrik vefinn meistarinn.is og „þar geturðu fengið eins og við segjum alvöru meistara. Það eru meistarar sem eru menntaðir iðnmeistarar í byggingariðnaði og á þessari meistarasíðu eru verksamningar sem almenningur getur skoðað og fengið leiðbeiningar um hvernig eigi að gera þá. Þar er líka gátlisti sem er einmitt fyrir húsfélög til að fara yfir og skoða hvað á við miðað við framkvæmd sem á að fara í. Þetta skiptir svo miklu máli að verkkaupi leiti sér upplýsinga hvort sem það er til fagmenntaðra tæknifræðinga, verkfræðinga eða iðnmeistara. Eða leiti inn á meistarinn.is þar sem er hægt að finna meistara hvar sem er á landinu sem eru félagsmenn Samtaka iðnaðarins og svo leiðbeiningarskjölin.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Friðrik.