Um breytingar á byggingarreglugerð

9. feb. 2016

Við gerð síðustu kjarasamninga varð það að samkomulagi milli umsemjanda að núgildandi byggingarreglugerð yrði endurskoðuð með það að markmiði að ná fram lækkun á byggingarkostnaði.

Við gerð síðustu kjarasamninga varð það að samkomulagi milli umsemjanda að núgildandi byggingarreglugerð yrði endurskoðuð með það að markmiði að ná fram lækkun á byggingarkostnaði. Í kjölfarið var skipuð nefnd til að leggja fram tillögur að breytingum. Fyrir hönd Samtaka iðnaðarins var skipaður í hana Friðrik Ólafsson, enda sá aðili sem besta þekkingu hefur á reglugerðinni og hefur verið helsti talsmaður okkar í þeim breytingum sem fengust við gerð reglugerðarinnar. Málum var hinsvegar þannig háttað að önnur nefnd, eingöngu var skipuð embættismönnum ráðuneytisins, var skipuð og hefur skilað tillögum sem nú eru til umsagnar. Það skal tekið fram að nefnd sú sem Friðrik á sæti í hefur aldrei af hálfu ráðuneytisins verið kölluð saman

Á stjórnarfundi MSI, Meistaradeild Samtaka iðnaðarins, var ákveðið að skipa þriggja manna nefnd úr röðum MSI til að rýna breytingarnar og koma með tillögur að athugasemdum. Völdust í nefndina auk undirritaðs, Jón Sigurðsson og Már Guðmundsson. Friðrik Ólafsson var nefndinni til aðstoðar.

Margar þeirra breytinga sem lagðar eru til eru í anda þeirra breytinga sem SI hafði áður lagt til við gerð reglugerðarinnar og má þar helst nefna minnkun á rýmisþörfum í aldgildri hönnun. Þessum breytingum er að sjálfsögðu fagnað en við teljum að enn megi gera betur og leggjum fram í tillögum okkar frekari breytingar er varða algilda hönnun.

Þá viljum við í tillögum okkar að hvergi verði slakað á varðandi Iðnlöggjöfina og leggjum áherslu á að breytingar verði gerðar á þá vegu að bætt verði úr í viðurlögum gegn brotum á löggjöfinni. Þá leggjum við til að krafa verði sett í reglugerðina um að einungis þeir sem hafa sótt sér menntun í frágangi votrýma hafi heimild til þeirra starfa sambærilegt við núgildandi reglur og lög um frágang brunaþéttingar. Nái það fram að ganga gæti það síðar leitt til lægri iðngjalda trygginga þar sem gríðarlegar fjárhæðir fara til bóta vegna þekkingarleysis og fúsks við frágang votrýma.

Í tillögum að breytingum á reglugerðinni er lagt til sérstakt ákvæði fyrir húsnæðissamvinnufélög og leigufélög þar sem undantektingar eru gerðar á algildri hönnun. Þetta er í anda þeirra tillagna sem SI hafa sett fram í formi heimildar um mismunandi gerð húsnæðis og við gerum alvarlegar athugasemdir við að þessi breyting eigi einungis við um húsnæði ætlað á leigumarkað og leggjum til að þetta ákvæði nái til alls húsnæðis enda eigi ekki að gera greinarmun á húsnæði ætlað á leigumarkað og húsnæði ætlað á almennan sölumarkað enda þá verið gert ráð fyrir slíku húsnæði deiluskipulagi sveitarfélaga. 

Ekki verður gerð nánari skil á þessum tillögum sem við leggjum fram í athugasemdum við breytingar á byggingarreglugerð, þeim verður gerð nánari skil á félagsfundi MIH fljótlega eftir aðalfund.  

Ágúst Þór Pétursson, formaður MIH