Landið að rísa í byggingariðnaði
Ákall um samstarf á sviði menntunar og rannsókna
Skýrsla um stöðu byggingariðnaðar var kynnt í fyrsta skipti á morgunverðarfundi í Húsi atvinnulífsins sl. fimmtudag. Þar var fjallað um niðurstöður úr spurningakönnun sem lögð var fyrir „Stefnumót íslensks byggingariðnaðar“ í nóvember. STEFNUmótið er nýjasta afurð samstarfsvettvangsins „Samstarf er lykill að árangri“ en að honum stendur breiður hópur aðila innan íslensks byggingariðnaðar þ.á.m. Samtök iðnaðarins, Mannvirkjastofnun, Félag byggingafulltrúa, Arkitektafélag Íslands, Verkfræðingafélag Íslands, Tæknifræðingafélag Íslands og Nýsköpunarmiðstöð.
Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar HÍ greindi frá helstu niðurstöðum, sem meðal annars er ákall eftir meira samstarfi, og Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins ræddi næstu skref. Þá ræddi Jón Guðmundsson fagstjóri byggingarsviðs Mannvirkjastofnunar skýrsluna almennt og framtíðartækifærin sem þar koma fram. Að lokum voru opnar umræður.
Í umræðum kom Almar Guðmundsson inn á að skýrslan fellur algerlega að þeim stefnuáherslum sem koma fram í nýrri stefnumótun SI. Þar eru áherslurnar mjög skýrar á aukna framleiðni, nýsköpun í allri sinni fjölbreytni (í öllum greinum iðnaðar), menntun í takt við þarfir atvinnulífs og mikla þörf á iðn- og verkmenntun.
Meðal helstu niðurstaðna skýrslunnar er:
- Mjög mikill áhugi innan geirans á samstarfi og stóraukið vægi menntunar og rannsókna. Efst á lista er að fjölga menntuðum iðnaðarmönnum.
- Framleiðni og skilvirkni í greininni er ónóg. Umbætur í vinnuskipulagi og reglugerðaumhverfi nauðsynlegar.
- Svört atvinnustarfsemi er vandamál í greininni sem allir innan hennar vilja uppræta.
- Aðgengi að bættum upplýsingum um byggingar á framkvæmdastigi skortir.
Frumkvæðið að skýrslunni má rekja til þess að samstarfshópur var stofnaður innan mannvirkjagerðar sem hefur starfað undir yfirskriftinni „Samstarf er lykill að árangri“. Sá hópur stóð að STEFNUmóti allra þeirra sem koma að mannvirkjagerð 4. nóvember sl. Gríðarleg þátttaka var í STEFNUmótinu, en um 200 sóttu ráðstefnuna sem stóð yfir heilan dag. Á STEFNUmótinu lögðu fulltrúar Félagsvísindastofnunar ítarlegar spurningakannanir fyrir þátttakendur þar sem spurt var um stöðu byggingariðnaðarins og framtíðartækifæri til eflingar og umbóta.
Byggingariðnaðurinn leggur nú 5% til landsframleiðslunnar, en það hlutfall fór upp í 11,6% árið 2006. Nú eru tölurnar að hækka að nýju og land því að rísa. Íslenskur byggingariðnaður býr við meiri sveiflur en sambærilegur iðnaður í öðrum iðnríkjum. Sú spurning brann því á fundargestum hvernig mætti draga úr þessum sveiflum. Í mannvirkjagerð starfa um 12.000 manns en miðað við verkefnin framundan er gert ráð fyrir að fjölga þurfi um 2-5.000 næstu tvö ár. Eigið fé í greininni þurrkaðist upp í kjölfar hrunsins, en byggist nú hægt og bítandi upp að nýju. Aðkoma stjórnvalda hefur ýkt uppsveiflur í byggingastarfsemi og orðið til þess að aðlögunin í niðursveiflum hefur verið brattari. Mikilvægt er að undirliggjandi efnahagsþættir verði grundvöllur vaxtar í byggingariðnaði fremur en aðgerðir stjórnvalda. Auka þarf framleiðni í byggingariðnaði. Hún vinnst samfara auknum stöðugleika og fyrirsjáanleika í íslensku efnahagslífi. Slík skilyrði skapast með bættri hagstjórn.
Innan greinarinnar er ákall eftir áframhaldandi samstarfi undir yfirskriftinni „Samstarf er lykill að árangri“.