Tæpir 19 milljarðar króna í skattafslátt vegna Allir vinna
Endurgreiðsla og lækkun skatta vegna átaksverkefnisins Allir vinna nam 18,7 milljörðum króna. Verkefninu lauk nú um áramót. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, segir í samtali við Fréttablaðið í dag samtökin hafa lagt á það ríka áherslu við fjármálaráðherra að áfram yrði haldið með verkefnið.
Endurgreiðsla og lækkun skatta vegna átaksverkefnisins Allir vinna nam 18,7 milljörðum króna. Verkefninu, sem upphaflega átti að ljúka í ársbyrjun 2011, lauk nú um áramót.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, sagði í samtali við Fréttablaðið í dag samtökin hafa lagt á það ríka áherslu við fjármálaráðherra að áfram yrði haldið með verkefnið. „Við náðum því því miður ekki í gegn,“ segir hún. Verkefninu hafi fylgt ávinningur umfram þá tímabundnu innspýtingu sem byggingargeirinn hafi þurft á að halda eftir hrun, svo sem í baráttunni gegn svartri atvinnustarfsemi, auk þess að búa til störf og viðhalda verðmæti eigna. Hér hafi svört atvinnustarfsemi lengi loðað við ákveðnar atvinnugreinar og jafnvel er talið að árlegt tekjutap ríkisins vegna þessa nemi um 70 milljörðum króna. „Og ég hefði viljað halda þessu inni í 100 prósentum til að koma allri þessari starfsemi upp á yfirborðið.“
Sjá nánar í Fréttablaðinu
Eftir hrun flutti mikill fjöldi iðnaðarmanna úr landi, sérstaklega til Noregs. Á visi.is í dag er rætt við Þorbjörn Guðmundsson framkvæmdastjóra Samiðnar. Hann segir verkefnið Allir vinna bæði hafa skilað sér í aukinni vinnu iðnaðarmanna og örvað fólk til framkvæmda. Þá hafi það vissulega dregið úr flótta iðnaðarmanna úr landi.
Sjá nánar á visir.is