Raki og mygla í byggingum - heilsa, hollusta, aðgerðir

28. nóv. 2013

Mikið fjölmenni sótti málþing um myglu og rakaskemmdir í byggingum sem haldið var á Akureyri á dögunum. Flutt voru mörg fróðleg erindi miklar umræður sköpuðust í pallborðsumræðum.

Mikið fjölmenni sótti málþing um myglu og rakaskemmdir í byggingum sem haldið var á Akureyri á dögunum. Flutt voru mörg fróðleg erindi miklar umræður sköpuðust í pallborðsumræðum.

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur, fjallaði um óboðna sveppi í íslenskum húsum. Hún sagði frá nokkrum tegundum smásveppa sem gjarnan vaxa innanhúss og þeirri fjölbreyttu fungu sem finna má á smábút af blautu byggingarefni.

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, BSc í líffræði, sagði m.a. frá reynslu sinni í baráttunni við sveppi og kynnti kostnaðartölur sem þessi vágestur hefur í för með sér og heimfærði tölur frá öðrum löndum yfir á Ísland.

Jón Guðmundsson, fagstjóri byggingarsviðs Mannvirkjastofnunar og Björn Marteinsson, sérfræðingur hjá Nýsköpunarmiðstöð, fjölluðu um mikilvægi þess að loftræsting í mannvirkjum sé fullnægjandi. Þeir segja rannsóknir skorta á umfangi heilsuvanda tengdum rakaskemmdum og ræddu hvaða hagfræðilegu áhrif slík vandamál geta haft. Þeir segja ljóst að betri úrræði vanti fyrir fólk og óljóst til hvaða stofnana fólk geti leitað sem lendir í slíkum hremmingum.

Erindi Þóreyjar Agnarsdóttur, heilbrigðisfulltrúa Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, snerist um raka og myglu í byggingum, heilsu, hollustu og aðgerðir. Þórey rakti hvernig mál sem berast eftirlitinu eru meðhöndluð.

Að lokum sagði Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir, frá sinni eigin reynslu af rakaskemmdu húsnæði á Landspítala við Hringbraut. Eftir að hafa leitað til ótal kollega, tekið sýklalyf í næstum 7 mánuði og gengist undir skurðaðgerð á ennisholum kom í ljós að orsökin var rakaskemmt vinnuhúsnæði. Tómas tók fram að efla þyrfti fræðslu lækna og læknanema um þessi vandamál og kallaði eftir vitundarvakningu enda meðferð flóknari en hefðbundin sýklalyf og sterar.

Pallborðsumræður

Fjörugar umræður voru að fyrirlestrum loknum. Þar sem meðal annars kom fram að Finnar hafa unnið markvisst að þessum málum í um 30 ár. Finnskir vísindamenn og skoðunaraðilar treysta ekki á loftsýnatökur við skoðun á húsnæði. Þar sem mygla er sjáanleg er engin þörf á sýnatöku heldur skal fjarlægja mygluna því að öll mygla, sem vex innandyra, telst vera áhættuþáttur heilsu. Einnig kom fram að á kaldari svæðum má búast við að mygla leynist undir gólfefnum eða í veggjum. Því þarf að efnisrakamæla og opna byggingarefnin til að ganga úr skugga um raunverulegt ástand bygginga. Eiturefni og skyndilausnir duga ekki til að leysa vandann þar sem þurr gömul mygla hefur sömu heilsufarsleg áhrif og sú sem er í fullum vexti. Árangur næst eingöngu ef rakaskemmd og mygluð byggingarefni eru fjarlægð.

Margir aðrir þættir en raki hafa áhrif á heilnæmi innilofts en byggingar skemmast í 70-80% tilvika vegna niðurbrots, raka og lífvera sem honum fylgja. Forvarnir vegna raka í húsnæði er því mikilvægt skref, bæði vegna tjóns og galla.

Fyrsta skrefið til að leysa slíkt vandamál er að fagstéttir og stofnanir viðurkenni vandamálið, hafi samráð og miðli upplýsingum, bæði sín á milli og til almennings.

Hér er hægt að nálgast alla fyrirlestrana.