Of fáar íbúðir í byggingu
Samtök iðnaðarins luku nýlega við talningu á íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstaðan er að fokheldar og lengra komnar íbúðir eru einungis 927 en áætlað er að hefja þurfi byggingu á 1500 – 1800 íbúðum árlega til að mæta þörfum markaðarins.
Samtök iðnaðarins luku nýlega við talningu á íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstaðan er að fokheldar og lengra komnar íbúðir eru einungis 927 en áætlað er að hefja þurfi byggingu á 1500 – 1800 íbúðum árlega til að mæta þörfum markaðarins.
Óveruleg breyting er á heildarfjölda íbúða á öllum byggingarstigum frá fyrri talningu SI sem framkvæmd var í byrjun árs 2013. Þó eru jákvæð teikn á lofti en mörg mannvirki sem staðið hafa auð og ókláruð frá hruni eru nú komin í notkun og talsvert er um nýframkvæmdir þó enn séu þær langt undir þörf.
Líta verður til þess að það tekur 18-24 mánuði að framleiða íbúðarhúsnæði í fjölbýlishúsi. Lóðaverð er enn of hátt og framleiðslukostnaður íbúðarhúsnæðis hefur aukist vegna hækkunar á efniskostnaði og aukinna krafna í nýrri byggingarreglugerð. Að mati SI er þörfin á húsnæði mest hjá hinum svokölluðu „fyrstu íbúða kaupendur“. Þessi hópur þarf að geta valið um ýmsar gerðir húsnæðis, t.d. ódýrt húsnæði án bílakjallara. Þá þarf að horfa til þess að þessi hópur kaupenda á í erfiðleikum með að fjármagna 20% af íbúðaverði og bregðast verður við því með einhverju hætti.