Golfmót MIH var haldið í Borgarnesi 21,júní síðastliðinn.

27. jún. 2012

Jóhannes, framkvæmdastjóri vallarins, hafði lofað okkur frábærum móttökum, frábærum velli og síðast en ekki síst frábæru veðri. Það er ekki oft sem menn geta staðið við svona fullyrðingar en í þessu tilfelli stóðst ALLT. Við þökkum Jóhannesi og öllu hans fólki kærlega fyrir mjög skemmtilegan dag.

Þetta golfmót MIH er hið tólfta í samfelldri röð golfmóta félagsins. Félagið hefur haft að leiðarljósi að vera ekki alltaf með þetta mót á sama velli og hefur félagsmönnum líkað það fyrirkomulag.

Eins og áður sagði gekk allt eins og best verður á kosið. Til viðbótar því sem hér að framan er talið gekk betur en síðustu ár að fá styrktaraðila að mótinu. Það auðveldar félaginu að halda þátttökugjaldi í algeru lágmarki.

Öllum styrktaraðilum er þakkað fyrir þeirra framlag, en þeir voru jafnt félagsmenn sem utanfélagsmenn.

Úrslitin í mótinu voru þau að í fyrsta sæti urðu Jónas Sigurðsson og Sigurfinnur Sigurjónsson með 40 punkta. Í öðru sæti urðu Sófus Berthelsen og Sigurður Aðalsteinsson einnig með 40 punkta, og í þriðja sæti urðu Reynir Einarsson og Albert Einarsson með 40 punkta einnig. Það sem réð úrslitum var að Jónas og Sigurfinnur voru með 22 punkta á seinni 9, Sófus og Sigurður voru með 20 punkta á seinni 9 og Reynir og Albert voru með 19 punkta á seinni 9.

Nándarverðlaun voru veitt á öllum par 3 brautum og það voru eftirtaldir einstaklingar sem þau fengu: á 2. braut var næstur holu Jón S. Hauksson, á 8. braut var það Dagbjartur Björnsson, á 10. braut var það Sigurfinnur Sigurjónsson, á 14. Braut var það Jóhann Ríkharðsson og á 16. braut var Friðrik Ág. Ólafsson næstur holu.

Að loknum hefðbundnum verðlaunaafhendingum var dregið úr skorkortum og er óhætt að segja að þessi viðburður er oft það sem vekur mestan áhuga þátttakenda.

Skemmtinefnd MIH þakkar bæði þátttakendum og velunnurum félagsins kærlega fyrir þeirra þátt í að gera þennan dag einstaklega ánægjulegan.

Heildar úrslit mótsins má sjá hér, nauðsynlegt er að fara eftir leiðbeiningum sem fram koma hér í næstu línu.

Þegar heildar úrslit birtast þarf að breyta "skori" í "punktar" og velja síðan "sækja", vegna þess að þetta var punktakeppni.

Með því að smella hér er hægt að skoða myndir frá mótinu.