Aðalfundur MIH var haldinn 10. febrúar síðastliðinn.

21. feb. 2012

Fundurinn fór vel fram og voru greinagóðar skýrslur fluttar úr starfi félagsins.

Hér eru myndir frá aðalfundinum.

 

Í skýrslu formanns var meðal annars fjallað um eftirfarið: Breytingar á störfum og viðveru starfsmanns MIH, almennt úr félagsstörfum svo sem súpufundum ofl, samskipti við embættismenn Hafnarfjarðar, skipulagsmál bæjarins, lóðaverð, samstarfið við Samtök iðnaðarins sem hefur verið til fyrirmyndar, þau fjölmörgu störf sem bæði formaður og aðrir stjórnarmenn sinni fyrir hönd MIH. Komandi tímar og horfur í atvinnulífinu var sérstaklega vel fjallað um í skýrslu formanns, og eru áhyggjur stjórnar miklar af því að lítið sem ekkert er að gerast í að koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju.

Reikningar félagsins voru samþykktir mótatkvæðalaust, en rekstur félagsins var réttum megin við núllið. Það sem hjálpaði mest í því var að leigutekjur jukust til muna á milli ára.

Í fjárhagsáætlun kom fram að lagt var til óbreytt félagsgjald og einnig var lagt til að auka framlag til almennra funda félagsins. Fundarmenn fögnuðu þessu og samþykktu fjárhagsáætlunina samhljóða.

Á aðalfundinum voru 6 nýir félagar samþykktir sem MIH er mjög ánægt með, sem betur fer eru iðnmeistarar að sjá að það er þeim til góða að vera aðilar að meistarafélaginu.

Uppstilling stjórnar til stjórnarkjörs var samþykkt en aðalstjórn er þannig skipuð eftir aðalfund: Ágúst Pétursson formaður, Jónas Sigurðsson varaformaður, Jón V Hinriksson gjaldkeri, Jón Þórðarson ritari og Haukur B Gunnarsson meðstjórnandi. Uppstilling stjórnar til varastjórnar var samþykkt (en varastjórn er skipuð þremur mönnum). Varastjórn MIH er þannig skipuð: Samúel V Jónsson, Sveinberg Gíslason og Gísli Ö Sigurðsson.

Eins og ávallt á aðalfundum félagsins eru fengnir gesta fyrirlesarar. Að þessu sinni fengum við fyrrverandi framkvæmdastjóra SI, Svein Hannesson, sem nú er framkvæmdastjóri Gámaþjónustunnar ehf til að taka þetta hlutverk að sér. Sveinn setti fyrirlestur sinn í búning bókarinnar „Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf” og rifjaði upp gamla tíma og endaði í nútímanum. Fundarmenn voru mjög ánægðir með fyrirlesturinn og skemmtilega uppsetningu hans. MIH þakkar Sveini Hannessyni kærlega fyrir hans þátt í umgjörð aðalfundar félagsins.