Golfmót MIH var haldið í Kiðjabergi 23,júní síðastliðinn.

27. jún. 2011

Ellefta golfmót MIH var haldið á hinum rómaða golfvelli í Kiðjabergi. Það er óhætt að segja að við höfum fengið ýmis sýnishorn af veðri, en að sjálfsögðu munum við bara eftir sólarstundunum. Golfmót MIH var haldið á þessum sama stað árið 2004, í einni mestu rigningu sem um getur. Í samanburði við það var veðrið frábært. Allir þátttakendur voru sammála um að völlurinn væri erfiður, en jafnframt stórkostleg áskorun. MIH vill þakka umsjónarfólki vallarins fyrir frábærar móttökur og góða þjónustu, allt tókst eins og best var á kosið. Ekki er hægt að sleppa umfjöllun um matinn sem var einstaklega góður, og gaman er að segja frá því að þegar besti golfari landsins, Birgir Leifur Hafþórsson, fór að afgreiða á barnum jókst salan þar til muna. Öllum styrktaraðilum er þakkað fyrir þeirra framlag, en þeir voru jafnt félagsmenn sem utanfélagsmenn. Úrslitin í mótinu voru þau að í fyrsta sæti urðu Jón S Hauksson og Stefán Jónsson með 43 punkta. Í öðru sæti urðu Sófus Berthelsen og Sigurður Aðalsteinsson með 40 punkt, og í þriðja sæti urðu Guðjón Snæbjörnsson og Björn Guðjónsson með 40 punkta einnig. Nándarverðlaun voru veitt á 3 brautum og það voru eftirtaldir einstaklingar sem þau fengu: á 7. braut var næstur holu Björn Guðjónsson, á 12. braut var það Jóhann Ríkharðsson og á 16. braut var Kristinn Jörundsson næstur holu. Einnig var dregið úr skorkortum. Skemmtinefnd MIH þakkar bæði þátttakendum og velunnurum félagsins kærlega fyrir þeirra þátt í að gera þennan dag einstaklega ánægjulegan.