Ábyrðasjóður Meistaradeildar SI og drög að breytingum á deiliskipulagi Völlum 7 kynnt.

Undirtitill

17. maí 2010

Ábyrgðasjóður Meistaradeildar SI og drög að breytingum á deiliskipulagi á Völlum 7 var kynnt á súpufundi félagsins í dag mánudaginn 17.maí.

Fundurinn byrjaði á því að formaðurinn, Ágúst Pétursson, kynnti drögin að breytingum á deiliskipulaginu á Völlum 7 sem er nálgun bæjarins að tillögum sem félagið lagði fram fyrir einu og hálfu ári. Þó svo að bæjaryfirvöld hafi ekki farið að fullu að tillögum félagsins er þetta mikil nálgun. Það sem helst felst í þessum breytingum er að fleiri verktökum er gert kleift að taka að sér byggingaframkvæmdir vegna þess að byggingamassins er minnkaður. Þess má einnig geta að þetta ætti að leiða til þess að fjármálastofnanir sjái sér frekar fært að fjármagna viðkomandi mannvirki. Bílastæðum í bílahúsum undir húsunum er fækkað til muna, og á nokkrum stöðum sett í val verktaka hvort bílahús verði sett eða ekki, og mögulegt er að framleiða minni íbúðir en gert hefur verið síðustu ár, sem gerir fyrstu íbúða kaupendum frekar kleift að kaupa nýtt húsnæði. Ef bæjaryfirvöld stíga það skref sem MIH hefur einnig bent á, sem er að lækka lóðaverð, þá kæmi það að sjálfsögðu einnig öllum íbúðakaupendum til góða vegna þess að lóðaverð kemur fram í íbúðaverði.

Síðan hófst kynning á Ábyrgðasjóði Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins. Hér er um algera nýjung að ræða. Tilgangur með Ábyrgðasjóðnum er að skapa traust milli viðskiptavina og verktaka sem starfa innan Meistaradeildar byggingagreina Samtaka iðnaðarins og tryggja viðskiptavinum félagsmanna MSI eins og kostur er að vinna framkvæmd af félagsmönnum MSI sé í samræmi við skriflegt samkomulag um verkið og góð fagleg vinnubrögð. Hér er hægt að lesa frekari upplýsingar um Ábyrðgasjóð og Úrskurðanefnd Meistaradeildar SI, en Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði er aðili að Meistaradeild SI.