MIH stóð fyrir framboðsfundi
Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði stóð fyrir fundi í hádeginu í dag þar sem öllum framboðum til sveitastjórnar í Hafnarfirði var boðið að kynna áherslumál sín í byggingar- og mannvirkjamálum. Hér má sjá frétt um sama efni á heimasíðu SI:
Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði stóð fyrir fundi í hádeginu í dag þar sem öllum framboðum til sveitastjórnar í Hafnarfirði var boðið að kynna áherslumál sín í byggingar- og mannvirkjamálum. Fundurinn byrjaði á því að Ágúst Pétursson, formaður MIH, fór yfir talningu SI í sveitafélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þar kom átakanlega í ljós að Hafnarfjörður stendur lakast allra sveitafélaga hvað varðar nýframkvæmdir íbúðabygginga. Staðan í dag er sú að einungis 150 íbúðir eru í byggingu og verktakar í Hafnarfirði sjá engin verkefni í kortunum næstu árin. Hafnfirskir verktakar eru farnir að leita til nágrannasveitafélaga eftir verkefnum. Þetta er nokkuð sem ekki hefur átt sér stað áður í Hafnarfirði.
Átta framboð mættu og fékk hvert og eitt framboð 10 mínútur. Að kynningum loknum var opnað á fyrirspurnir sem voru mjög líflegar. Fulltrúi sjálfstæðismanna talaði m.a. um að hugsanlega hafi ekki verið nógu skýrt kveðið á um skipulagsmál í samstarfssáttmála meirihlutans sem nú er við völd. Það hafi hugsanlega leitt til allt of strangra „deiliskilmála“ sem að mati MIH hamlar uppbyggingu „draugahverfisins“ í Skarðshlíð. Öll framboðin töluðu skýrt um það að hér eftir yrði haft samráð við verktaka áður en deiliskipulag og deiliskilmálar verði samþykktir. MIH vonast til þess að nú verði staðið við þessi loforð, en þau hafa heyrst áður.
MIH þakkar öllum framboðum fyrir góðan fund og vonast til þess að samráð verði haft og tekið verði tillit til ábendinga MIH.