Hafnarfjarðarbær auglýsir fjölbýlislóðir

28. apr. 2020

Auglýst er eftir umsóknum um sex fjölbýlislóðir í Hamranesi

Eins og allir félagsmenn MIH vita hefur MIH verið að leggja mikla áherslu á að Hafnarfjarðarbær skipuleggi hverfi þar sem skilmálar verði ekki það strangir að nánast ógerningur er að byggja vegna allt of mikils kostnaðar, horft til markaðsverðs. Stjórnarmenn MIH hafa átt marga fundi, bæði með pólitíkusum og embættismönnum, og lagt fram tillögur að lausnum og ekki síður að leggja fram gagnrýni á tillögur sem hafa legið fyrir. Og viti menn, bæjaryfirvöld hafa loksins hlustað og tekið tillit til áherslumála MIH. Þetta er að mínu mati mikill sigur fyrir MIH.

Loksins eru bæjaryfirvöld búin að „sjá ljósið“ og hafa auglýst lóðir undir fjölbýlishús í Hamranesinu til úthlutunar með „gömlu“ aðferðinni, þ.e lóðum úthlutað til lögaðila en ekki boðnar út og seldar hæstbjóðenda. Sjá link. https://www.hafnarfjordur.is/ibuar/lodir-og-teikningar/lausar-lodir/hamranes

Til að bærinn geri þetta mögulega oftar í framtíðinni er mikilvægt að hafnfirskir verktakar sæki um þessar lóðir og sýni þannig áhuga sinn í verki.

Einnig vill ég minna á að mikið er til af lóðum fyrir minni mannvirki, sérbýli og eitthvað undir lítil sambýli, í Skarðshlíð sjá https://skardshlidin.is/lodir/. Bæjaryfirvöld hafa lofað því að horfa með jákvæðum augum með það að „sveigja frá“ ströngum deiliskilmálum ef þess er nokkur kostur. Hvað felst í því nákvæmlega er erfitt að segja en um að gera að leita til formanns Skipulags- og byggingaráðs, Ólafs Inga Tómassonar, ef félagsmenn eru með einhverjar hugmyndir að uppbyggingu mannvirkis í Skarðshlíð.

Kær kveðja,

Jón Þórðarson formaður MIH