Golfmót MIH var haldið í Mosfellsbæ 25. júní
Tuttugasta Meistaramót MIH í golfi var haldið í á Hlíðarvelli í Mosfellsbæ 25. júní síðastliðinn. Nánast alltaf hefur veðrið verið gott þegar þetta mót er haldið og var engin undantekning nú. Þess má geta að þetta er í fyrsta skiptið sem mótið er haldið á höfuðborgarsvæðinu
Það verður að segjast eins og er að allur bragur mótsins bar
þess merki að mótið var haldið á höfuðborgarsvæðinu. Það voru meiri kröfur
gerðar til hinna ýmsu mála sem þátttakendur eru ekki vanir. Margir voru mjög
ánægðir með þetta „strangara aðhald“, aðrir ekki. Heyrðist á mörgum að þeir
vilji meira „frjálsræði“ og söknuðu rútuferðanna til og frá mótsstað.
Aldrei í sögu félagsins hafa jafn margir þátttakendur verið í mótinu, 64 einstaklingar spiluðu golf. Hlíðarvöllur skartaði sínu fegursta, var í frábæru standi.
Öll þjónusta á golfvellinum var frábær, maturinn með því besta sem verið hefur þannig að allt hjálpaðist að til að gera mótið frábært.
Öllum styrktaraðilum er þakkað fyrir þeirra framlag, en þeir voru margir og var þeim gerð góð skil á mótsstað.
Gaman er að geta þess að einstaklega gott skor var á þessu mót, þess má geta að þeir sem urðu í 7-unda sæti fengu 39 punkta sem sýnir frábært skor.
Úrslitin í mótinu voru þau að í fyrsta sæti urðu Stefán Jónsson og Víðir Stefánsson með 45 punkta. Í öðru sæti urðu Helgi Harðarson og Ólafur Bjarki Ragnarsson með 41 punkt, og í þriðja sæti urðu Jón Þórðarson og Hallgrímur T. Ragnarsson með 40 punkta.
Nándarverðlaun voru veitt á 4 brautum og það voru eftirtaldir einstaklingar sem þau fengu: á 3. braut var næstur holu Stefán Jónsson, á 7. braut Þórir Gíslason á 15. braut var það Kjartan Guðjónsson, á 18. braut var það einnig Kjartan Guðjónsson.
Þá var í fyrsta skipti veitt verðlaun fyrir lengsta drive. Að þessu sinni var mælt á 8. braut og drivið átti Ólafur Bjarki Ragnarsson.
Skemmtinefnd ákvað að draga ekki úr skorkortum að þessu sinni. Í stað þess var ákveðið að veita verlaun fyrir 20 efstu sætin. Þessi breyting mæltist vel fyrir.
Skemmtinefnd MIH þakkar bæði þátttakendum og velunnurum félagsins kærlega fyrir þeirra þátt í að gera þennan dag einstaklega ánægjulegan.