Aðalfundur MIH

Aðalfundur MIH var haldinn 15. febrúar síðastliðinn á B59 Hótel í Borgarnesi.

13. mar. 2020

Jón Þórðarson formaður flutti skýrslu stjórnar um störf síðasta árs. Formaður fjallaði meðal annars um:


Nefndarstörf, félagsmál almennt, samstarf við SI, samskipti við Hafnarfjarðarbæ, komandi tíma og horfur í atvinnumálum og margt fleira. Skýrslur sem kynntar voru á aðalfundinum liggja frammi á skrifstofu MIH og eru aðgengilegar öllum félagsmönnum.

Reikningar félagsins voru samþykktir samhljóma enda rekstrarniðurstaðan mjög góð. Það sem hjálpaði mest í því var að leigutekjur eru stöðugar og rekstrarkostnaður lítill.

Í fjárhagsáætlun kom fram að lagt var til óbreytt félagsgjald, enn einu sinni, og einnig var lagt til að auka framlag til almennra funda félagsins. Fundarmenn fögnuðu þessu og samþykktu fjárhagsáætlunina samhljóða.

Undir liðnum „önnur mál“ urðu líflegar umræður um orlofshús félagsins á Akureyri. Samþykkt var að vísa því til stjórnar að kanna aðra valkosti en þann að breyta og lagfæra núverandi húsnæði eins og kynnt var í fjárhagsáætlun.

Á aðalfundinum voru 5 nýir félagar kynntir, sem MIH er mjög ánægt með, sem betur fer eru iðnmeistarar að sjá að það er þeim til góða að vera aðilar að meistarafélaginu.

Að þessu sinni var kosið um varaformann og gjaldkera ásamt varamönnum. Hjálmar R. Hafsteinsson hafði ákveðið að gefa kost á sér áfram og fékk hann fullan stuðning í það embætti. Haukur B. Gunnarsson ákvað að gefa ekki kost á sér áfram. Sigurfinnur Sigurjónsson var kosinn nýr gjaldkeri til tveggja ára. Tveir varamenn stjórnar höfðu ákveðið að gefa kost á sér áfram og fengu þeir fullt umboð til þess, en það eru Kristinn Kristinsson og Arnar Þór Guðmundsson. Jóhann Unnar Sigurðsson var kosinn nýr inn í varastjórn. Varastjórn er ávallt kosin til eins árs en stjórnarmenn til tveggja ára, samkvæmt lögum MIH. Aðalstjórn er þá þannig skipuð: Jón Þórðarson formaður, Hjálmar R. Hafsteinsson varaformaður, Sigurfinnur Sigurjónsson gjaldkeri, Stefán Örn Kristjánsson ritari og Hilmar Snær Rúnarsson meðstjórnandi. Varastjórn MIH er þannig skipuð: Kristinn Kristinsson, Arnar Þór Guðmundsson og Jóhann Unnar Sigurðsson.